Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Blómstrandi byggð
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 11:12

Blómstrandi byggð

Ég hef ferðast töluvert í gegnum árin bæði innanlands og erlendis. Það sem mér hefur þótt einkenna flest bæjarfélög sem ég hef heimsótt er blómlegur miðbær sem iðar af mannlífi á sumrin.  Því miður, er það eitthvað sem mér hefur þótt  vanta í miðbæinn okkar í Reykjanesbæ.  Þessu þarf að breyta.
 
Ég var að lesa á vef Ferðamálastofu að við séum ekki að fá nema 16% af  þeim fjölda sem fer inn í landið í gegnum Leifsstöð á ári hverju.  Ég tel að við getum hækkað þessa tölu umtalsvert og ávinningurinn yrði verslunum og þjónustuaðilum í miðbænum til góða.  Við högnumst  öll á því að hafa hérna fjölbreytt mannlíf og sterka verslun auk þess sem að það myndi laða fleiri fyrirtæki og útibú á svæðið.  Svo ég tali nú ekki um stemmninguna sem myndi fylgja því að rölta um Hafnargötuna á góðu sumarkvöldi iðandi af fjölbreyttu mannlífi.
 
En hvernig er hægt láta þennann draum verða að veruleika? Það þarf engar stórframkvæmdir til þess. Það fyrsta sem þyrfti að gera er að opna 1 til 2 tjaldstæði nálægt miðbænum.  Í dag er ekkert tjaldstæði í Reykjanesbæ fyrir utan tjaldstæði sem stendur til að opna við Víkingaheima í Njarðvík.  Sú staðsetning gerir ekkert fyrir miðbæinn og heldur lítið fyrir ferðamanninn þar sem langt er í alla þjónustu fyrir utan verslunarkjarnann á Fitjum. Næsta skref yrði að bjóða upp á strætóferðir beint frá flugstöðinni og niður í miðbæ .  Ennfremur þarf að markaðsetja Reykjanesbæ betur upp á Leifsstöð.  Það fyrsta sem ferðamaðurinn sér þegar hann hefur sótt farangurinn  sinn er að þeirra bíði rútur rétt handan við hornið beint til Reykjavíkur.
 
Þessu þarf að snúa við og byrja að ferja ferðamennina til okkar. Með þessu myndum við ná að stórauka ferðamannastrauminn til okkar og glæða miðbæinn miklu meira lífi og gera Hafnargötuna mun meira spennandi bæði fyrir ferðamanninn og okkur sjálf sem búum hérna.
 
Stöndum saman og gerum okkar besta til að láta ferðamenn líða velkomna og eftirsótta. Það að pota þeim á tjaldsvæði við Vikingasafnið, sem ég ber þó mikla virðingu fyrir, er eins og að segja þeim að þeir megi koma hérna en bara ekki vera fyrir.  Miðbærinn okkar hefur margt upp á að bjóða í formi verslanna, veitingarhúsa og sjávarsíðuna.  Leyfum fleiri að njóta með því að staðsetja nokkur smærri tjaldstæði nær miðbænum.  Fjölbreytileiki er blómleg byggð.  
 
Þórarinn Steinsson
3. sæti VG og óháðra.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024