Aðsent

Atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur
Laugardagur 24. nóvember 2018 kl. 14:47

Atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur

Kannanir meðal eldri borgara hafa sýnt að nær öllum, eða 97%, finnst að auðvelda ætti þeim sem komnir eru á lífeyrisaldur að vera virkir á atvinnumarkaði. Atvinnuþátttaka eldri borgara færir þeim aukna virkni í samfélaginu. Aukin virkni stuðlar að vellíðan og lífsánægju og því virkara sem eldra fólk er því meiri lífsgleði upplifir það. Stjórnvöld verða að vera meðvituð um þetta. Þau verða að vera meðvituð um stöðu, væntingar og viðhorf aldraðra þegar kemur að atvinnuþátttöku og jákvæðum áhrifum hennar á líðan eldri borgara.
 
Eldri borgarar nú á tímum eru betur á sig komnir líkamlega í dag en áður fyrr, fólk getur vænst þess að lifa lengur og þess vegna er þörf á að koma á móts við aldraða til að þeir haldi áfram að vera virkir í samfélaginu og haldi sjálfræði og sjálfstæði sínu eins lengi og kostur er. Þeir sem hafa áhuga og getu til að vinna lengur ættu að fá frekari tækifæri með meiri sveigjanleika um starfslok og atvinnuþáttöku eftir að taka lífeyris hefst. Eldra starfsfólk hefur oft mikla þekkingu og starfsreynslu sem getur nýst vel á mörgum vinnustöðum og er það bæði hagur fyrir þá sem vilja halda áfram að vera á vinnumarkaðinum sem og fyrir samfélagið í heild sinni. Rannsóknir hafa sýnt að það að vera í félagsskap með öðru fólki getur veitt eldra fólki mikla ánægju. 
 

Bætir lífsgæði og er þjóðhagslega hagkvæmt

 
Miðflokkurinn hefur lagt ríka áherslu á það að afnema tekjutengingu bóta vegna launatekna eldri borgara og flytur flokkurinn breytingartillögu við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem nú er til umræðu á Alþingi, þess efnis að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Rannsóknarsetur verslunarinnar gerði rannsókn fyrir nokkrum árum um áhrif þess á ríkissjóð ef atvinnuþáttaka eldri borgara yrði aukin og ef aldurstengdar bætur yrðu ekki skertar þó að viðkomandi hefði launatekjur. Niðurstaðan var sú að ríkissjóður mundi hagnast vegna aukinna skatttekna. Ef tekjutenging á bætur eldri borgara yrði afnumin myndi það hvetja þá til að koma í auknum mæli aftur inn á vinnumarkaðinn. Skortur er á vinnuafli hér á landi eins og í verslun og þjónustu og hefur þurft að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl. Mörgum þessara starfa gætu eldri borgarar sinnt.
 
Eldri borgarar eiga að geta tekið þátt á vinnumarkaði eins og hverjum og einum hentar án þess að þurfa að taka á sig skerðingu á lífeyri. Það bætir lífsgæði þeirra og er þjóðhagslega hagkvæmt.
 
Birgir Þórarinsson,
þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024