Aðsent

Ásökunum forseta bæjarstjórnar um trúnaðarbrest vísað á bug
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ.
Fimmtudagur 18. apríl 2019 kl. 05:00

Ásökunum forseta bæjarstjórnar um trúnaðarbrest vísað á bug

Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur sakað undirritaða um að brjóta trúnað með því að upplýsa almenning um bótagreiðslu Reykjanesbæjar upp á 43 milljónir til verkataka að Pósthússtræti 5–9.

Rétt er að benda forseta bæjarstjórnar á að skv. 15. gr. sveitastjórnarlaga skal fundarboði fylgja dagskrá fundar og gögn sem nauðsynleg eru til að taka upplýsta afstöðu til mála, sem þar eru tilgreind. Um er að ræða opinber gögn nema annað sé sérstaklega ákveðið. Skv. 16. gr. sömu laga kemur fram að fundir sveitastjórna skulu vera opnir, með þeirri undantekningu að sveitastjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum, þegar það telst nauðsynlegt vegna eðli máls. Lagaákvæðið á sér hliðstæðu í 3. mgr. 17. gr. samþykkta um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

Ekki var óskað eftir því að umrætt mál yrði rætt fyrir luktum dyrum í bæjarstjórn. Mál Reykjanesbæjar og verktakans við Pósthússtræti sætti ekki þeirri meðferð í bæjarstjórn sem trúnaðarmál eiga að sæta, þar af leiðandi var um að ræða opinber gögn, rædd á opnum fundi. Gögn sem hver og einn bæjarbúi getur óskað eftir og á rétt á að fá.

Sýslað með opinbert fé – almenningur á rétt á upplýsingum
Á það skal bent að samkomulag eins og Reykjanesbær gerði við umræddan verktaka, þar sem er verið að sýsla með opinbert fé, getur ekki, má ekki og skal aldrei teljast til trúnaðarmála. Þegar um er að ræða ráðstöfun á útsvarstekjum bæjarbúa, skal meginreglan um gegnsæi gilda. Upplýsa ber bæjarbúa þegar verið er að sýsla með opinbert fé í samkomulagi sem þessu.

Forseti bæjarstjórnar verður að gefa skýringar á því hvers vegna hann telur að þessar upplýsingar eigi ekki erindi við almenning.

Forseti bæjarstjórnar ætti að kynna sér til fróðleiks úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Benda má á sambærilegt mál og hér um ræðir: Í máli 736/2018 Úrskurðarnefndar um upplýsingarmál, var RÚV krafið um aðgang að sátt í máli RÚV og einstaklings. RÚV synjaði aðgangi að samkomulaginu með vísan til trúnaðar. Féllst úrskurðarnefndin ekki á málatilbúnað RÚV  og lagði áherslu á að markmið upplýsingalaga væri aðhald að opinberum aðilum og gegnsæi við meðferð opinberra hagsmuna. Umrætt samkomulag taldi nefndin fela í sér ráðstöfun á opinberu fé, sem almenningur átti ríkan rétt til að kynna sér.

Forseti bæjarbæjarstjórnar hefur greinilega hlaupið á sig í Pósthússtrætismálinu. Ég fyrirgef honum það en vænti þess að hann kynni sér betur sveitarstjórnarlögin áður en hann stjórnar næsta fundi bæjarstjórnar og sakar bæjarfulltrúa um trúnaðarbrest að ósekju.

Margrét Þórarinsdóttir
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs