Optical Studio
Optical Studio

Aðsent

Árangur hefur náðst!
Sunnudagur 24. febrúar 2019 kl. 03:00

Árangur hefur náðst!

Hávær umræða hefur verið um hve ójöfn fjárframlög til opinberra stofnanna á Suðurnesjum séu miðuð við stofnanir víða annars staðar. Málið höfum við þingmenn kjördæmisins rætt á reglulegum samráðsfundum með Félagi atvinnurekanda á Reykjanesi (SAR) og sveitarstjórnafulltrúum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) tók þetta mál föstum tökum með því að láta óháðan aðila gera skýrslu um málið sem hefur verið markvisst kynnt fyrir ráðuneytum, stofnunum og þingmönnum. Þessi vinna hefur nú þegar skilað sér vel sem góður stuðningur við þá vinnu sem við þingmenn svæðisins höfum verið að vinna að undanfarin ár. Verkefnin eru mörg og hefur gengið misvel að koma þeim áfram. Góður árangur hefur náðst í mörgum málum og með framtaki SSS hefur komist aukinn kraftur í önnur mál. 
 
Hægt væri að skrifa heila grein um hvert mála um sig en mig langar að nefna nokkur þeirra hér til upplýsingar.
 
Áfangasigrar hafa náðst á Reykjanesbrautinni með nýjum hringtorgum, mislægum gatnamótum við Krísuvíkurgatnamótin og nú er í útboði aðskilnaður akstursstefna inni í Hafnafirði. Allt eykur þetta umferðaröryggi okkar sem hér búum en lokum framkvæmda þarf að flýta enn frekar. Framkvæmdir við endurbætur á Grindavíkurvegi eru komnar af stað og hefur viðhald á helstu leiðum á Reykjanesinu verið stórbætt.
 
Áherslur í fjármálaáætlun og byggðaáætlun um að meðhöndla Suðurnes sem vaxtarsvæði hefur skilað sér, til að mynda með auknum skilningi á stöðu heilbrigðisstofnunarinnar. Samskipti okkar við heilbrigðisráðherra eru góð og finnum við fyrir skilningi á því aukna álagi sem sú fjölbreytta íbúafjölgun og aukni ferðamannastraumur hefur á stofnunina. Aðbúnaður og fjárframlög Lögreglunnar á Suðurnesjum hafa verið stórbætt og umfram önnur lögregluembætti.
 
Endurskoðun á málefnum Kadeco eru langt komin í fjármálaráðuneytinu í samstarfi við sveitarfélögin og Isavia. Þar hefur, að mínu mati, hjálpað mikið til að heimamenn eru í forsvari stjórnarinnar og félagsins sjálfs. Gangi þær fyrirætlanir eftir munu mörg tækifæri skapast til uppbyggingar á fjölbreyttari atvinnustarfsemi og markaðssetningu á svæðinu fyrir verðmætari störf. Ég hef þá trú að þessi vinna hafi skilað auknum skilningi ríkisvaldsins á þeirri innviðaþörf sem hér er til staðar og hvað þarf til svo tækifærin sem okkar öfluga svæði hefur verði nýtt.
 
Fjármagn hefur verið tryggt til að hefja uppbyggingu á félagsaðstöðu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefst sú vinna vonandi fljótlega. Það hefur tekið ótrúlega langan tíma að fá fjármagnið en nú sér vonandi fyrir endann á því. Málefni Keilis hafa mörg hver verið leyst og er gaman að fylgjast með eflingu þess skóla rétt eins og Fisktækniskólans í Grindavík eftir að hann fékk þjónustusamning. Velferðarnefnd Alþingis ræðir málefni eldri borgara þessa dagana og eru hjúkrunarheimilismálin alltaf á dagskrá, m.a. undirbúningur við fjölgun hjúkrunarrýma í Reykjanesbæ. Þar þarf að móta stefnu á landsvísu sem tryggir sem besta þjónustu fyrir eldri borgara um land allt með það að markmiði að þeir hafi sem lengst val um búsetu og þjónustu. 
 
Skipulag markaðsstofanna hefur verið til endurskoðunar innan Ferðamálastofu og var þá gengið á hlut Markaðsstofu Suðurnesja vegna nálægðar við flugvöllinn. Ferðamálaráðherra tók ekki undir þessa nálgun og varð því ekki af samdrætti hjá markaðsstofunni. 
 
Því er ekki að leyna að málflutningi okkar um skert framlög til Suðurnesja er misvel tekið innan kerfisins og er okkur svarað með ýmsum rökum en í þingnefndum Alþingis finnst mér okkur vel tekið. Aðrir benda svo öfundaraugum á okkur vegna þeirra miklu uppbyggingar sem á sér stað á vegum Isavia, félags í opinberri eigu. Við þingmenn kjördæmisins erum samhent í því að fylgja málum áfram fast eftir í þágu Suðurnesja. 
 
Vilhjálmur Árnason,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins. 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs