Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Álver - kálver - fiskeldi
Sunnudagur 1. nóvember 2020 kl. 06:23

Álver - kálver - fiskeldi

Löng saga – og leiðinleg á köflum

Í byrjun þessarar aldar átti að útrýma atvinnuleysi á Suðurnesjum með því að reisa lítið álver í Helguvík. En það óx og fyrr en varði létu stóriðjusinnar sig dreyma um 250.000 tonna ársframleiðslu, sem jafnast á við Reyðarál, stærsta álver landsins, sem öll raforka frá Kárahnjúkavirkjun dugir varla til. Allt skyldi virkjað í drasl um suðvestanvert landið og umhverfið skreytt með risavöxnum háspennulínum.

Vinstri græn töldu þetta fásinnu og voru af mörgum ástæðum á móti frá upphafi. Orkufrek stóriðja gæti kostað áföll, bæði fyrir efnahag og náttúru. Hreyfingin barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og ekki síður gegn álveri í Helguvík með tilheyrandi náttúrueyðileggingu vegna virkjana, m.a. í Þjórsá og um endilangan Reykjanesskagann. Þess í stað hefur VG frá upphafi lagt áherslu á fjölþætta atvinnustarfsemi í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og félögum. „Eitthvað annað“ sögðum við og margir gerðu grín að. Reyndar bentum við á að heppilegri „stóriðja“ var þarna til staðar og í örum vexti, nefnilega flugvöllurinn og flugstöðin, og lögðum áherslu á að efla ferðaþjónustu sem þá var rétt í burðarliðnum.

Public deli
Public deli

Umhverfisráðherra okkar, Svandís Svavarsdóttir, varð fyrir fordæmalausum árásum Suðurnesja-afturhalds í fjölmiðlum fyrir það að sinna starfsskyldum sínum og taka til varnar fyrir náttúruperlur – með því að sjá til þess að Suðvesturlína yrði umhverfismetin ásamt öðrum framkvæmdum tengdum álveri í Helguvík. Hún benti einnig á að ekki lægi fyrir hvaðan orka ætti að koma til slíkrar starfsemi og vildi því staldra við. Svandís var sökuð um að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu en síðar kom í ljós að sú óverulega töf, sem þá varð, breytti engu um þá staðreynd að áform um álver í Helguvík voru byggð á sandi.

Nú er ljóst að þeir varkáru höfðu lög að mæla og álversmannvirki, sem hróflað var upp í Helguvík, standa þar straumlaus. Dýr, tröllvaxinn minnisvarði um úrelta atvinnustefnu á Suðurnesjum sem allir flokkar stóðu að nema Vinstri græn!

Um tíma störfuðu hér samtökin Sól á Suðurnesjum og beittu sér gegn álversáætlunum, kröfðust m.a. kosninga um álverið strax árið 2007. Þar voru í forystu Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, Elvar Geir Sævarsson, Heiða Eiríks og fleiri. Hreyfingin naut málefnastuðnings Vinstri grænna en aðrir flokkar studdu álvershugmyndina.

Árni Sigfússon barðist frá upphafi ötullega fyrir álverinu sem bæjarstjóri í Reykjanesbæ og var æði bjartsýnn í Víkurfréttum 24. apríl 2007. „Fátt kemur í veg fyrir byggingu álvers í Helguvík eftir undirritun orkusamnings í gær segir bæjarstjórinn í Reykjanesbæ. En álversandstæðingar Sólar á Suðurnesjum eru á öðru máli.“

Sól á Suðurnesjum hélt fund í Svarta pakkhúsinu 12. janúar 2007 og síðar sendu tíu náttúruverndarfélög frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst er vanþóknun á ómálefnalegri auglýsingaherferð fyrirtækja á Suðurnesjum gegn ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínur. Ekki sé útséð með að hægt verði að útvega alla þá orku sem fyrirtækið telur sig þurfa. Krafa fyrirtækja á Suðurnesjum um orku til álvers í Helguvík sé á við heila Kárahnjúkavirkjun á 100% láni á ábyrgð orkufyrirtækja í eigu þjóðarinnar.

Sex árum síðar, 2. desember 2016, segir frá því í Víkurfréttum að leikarinn ástsæli, Stefán Karlsson, bjóði Kjartani Má, bæjarstjóra, upp í dans og vilji stofna kálver í Helguvík. Hann vilji stofna grænmetisframleiðslufyrirtæki í byggingum Norðuráls í Helguvík. Söngkonan Björk hafði viðrað svipaðar hugmyndir í þættinum Návígi árið 2010. „Mengandi stóriðja er ekki rétta leiðin til að tryggja atvinnu fyrir fólk hér á landi, heldur á að rækta grænmeti til útflutnings. Suðurnesin eru besti staðurinn til þess með tengingu til bæði Bandaríkjanna og Evrópu,“ segir Stefán. Ekki verði notuð eiturefni eða sýra en LED-lýsing sem notar 70% minni raforku en í hefðbundinni gróðurhúsaræktun. Þarna gætu orðið til 150–200 störf.

Nú, fjórum árum síðar, herma fréttir að Samherji vilji hefja laxeldi í Helguvík, sbr. RÚV 14. október síðastliðinn. Afbragðshugmynd! Laxeldi á landi fylgir að mörgu leyti minna álag á umhverfið en sjókvíaeldi. Álversbyggingarnar eru ævintýralega stórar, um 2,3 hektarar, og lóðin umhverfis 100 hektarar. Góð stórskipahöfn er við túnfótinn. Myndi að vísu þurfa rafmagn en aðeins brotabrot af því sem álver hefði þurft. Við hliðina stendur fullbyggt og ónotað (og misheppnað) kísilver með gildri rafheimtaug sem gæti þá nýst til einhvers.

Hvert verður nú framhald þessarar löngu sögu?

Þorvaldur Örn Árnason,
líffræðingur og kennari á eftirlaunum.
Félagi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.
Búsettur í Vogum.