Flugstefna Íslands
Flugstefna Íslands

Aðsent

Aflafréttir: Siggi Bjarna með risalöndun
Siggi Bjarna landaði risalöndun 41,3 tonnum þar sem steinbítur var uppistaðan.
Laugardagur 15. júní 2019 kl. 07:22

Aflafréttir: Siggi Bjarna með risalöndun

Aldeilis að veðurblíðan er búin að vera yfir Suðurnesjum núna síðustu vikur, frekar óvenjulegt miðað við undanfarin sumur sem hafa einkennst af rigningu. Þrátt fyrir þessa veðurblíðu þá hefur nú ekki verið mikil útgerð héðan og eru margar ástæður fyrir því. Ein er að kvótastaða marga báta er orðin lítil, slipptaka og viðhald á bátum og síðan eru nokkrir bátar farnir burt til þess að róa bæði fyrir norðan og austan.

Í flokki báta sem eru að fimmtán tonnum að stærð þá er enginn línubátur í þeim flokki að róa héðan, nema Dúddi Gísla GK frá Grindavík, sem hefur landað 10,5 tonn í tveimur róðrum og af því er langa 6,5 tonn. Í það minnsta þrír bátar í þessum flokki eru í slipp,  Dóri GK,  Von GK og Sævík GK sem hétu lengst af Óli Gísla GK. Sævík GK, sem er í eigu Vísis ehf í Grindavík, er í lengingu og verður báturinn eftir lengingu þá svipaður að stærð og Bíldsey SH sem er um 30 tonn.

Beta GK er komin til Skagastrandar og hefur landað þar 3,2 tonn í tveimur róðrum. Gosi KE var með 1,8 tonn í einni löndun í Þorlákshöfn á  handfærum. Alli GK á Breiðdalsvík með 1,3 tonn í einum róðri.

Addi Afi GK er kominn á Skagaströnd og hefur landað 9,2 tonn í tveimur róðrum. Birta Dís GK er í Stykkishólmi á grásleppu og er með 3,8 tonn í tveimur róðrum. 

Veðurblíðan gerir það reyndar að verkum að handfærabátarnir komast mikið á sjóinn og ef við skoðum hafnirnar í Grindavík þá hafa tólf færabátar landað afla núna í júní og er Hrappur GK aflahæstur með 2,3 tonn í þremur róðrum, rétt á eftir er Þórdís GK með 2,2 tonn í þremur róðrum. Sigga GK 2,1 tonn í þremur.  Stakasteinn GK tvö tonn í fjórum. Allt eru þetta strandveiðibátar.

Einungis einn færabátur af minni gerð hefur landað í Sandgerði. Gréta GK með 139 kíló í einni löndun. 

Dragnótabátarnir eru að landa í Þorlákshöfn og þangað kom Siggi Bjarna GK með risalöndun og er þessi löndun ein sú stærsta sem báturinn hefur komið með í land en báturinn kom með 41,3 tonn í land og af því var steinbítur uppistaðan í aflanum eða 30 tonn. Þennan risaafla fékk báturinn mjög langt frá Þorlákshöfn en veiðisvæðið var úti fyrir Skeiðarársandi og er þetta hátt í tólf klukkutíma stím frá Þorlákshöfn.

Hinir bátarnir frá Nesfisk hafa líka verið þarna á veiðum, Benni Sæm GK og Sigurfari GK. Benni Sæm GK kom með 34,6 tonn í einni löndun og af því var steinbítur 27 tonn. Sigurfari GK kom með 22,4 tonn í einni löndun og af því var steinbítur 16 tonn.

Þessir þrír bátar eru ekki einu Suðurnesjabátarnir sem eru á veiðum þetta langt með suðurströnd Íslands því að netabáturinn Grímsnes GK er þarna líka á veiðum, þó ekki eins austarlega en Grímsnes GK er aðallega á ufsaveiðum úti fyrir Vík í Mýrdal og að Þjórsá. Grímsnes GK hefur landað 15,4 tonn í einni löndun og var ufsi af því 9,5 tonn. 

Hinir netabátarnir eru ekki nema þrír og hefur veiðin hjá þeim verið treg. Maron GK með fjögur tonn í þremur róðrum. Halldór Afi GK 857 kíló í tveimur róðrum  og Hraunsvík GK 5,3 tonn í fimm róðrum.

Svona mikil veðurblíða lokkar margan manninn í fjöruna til þess að fylgjast með sléttum sjó og mjög fallegu sólarlagi.

Gísli Reynisson - aflafrettir.is

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs