Aðsent

Að standa við loforðin
Fimmtudagur 13. febrúar 2020 kl. 07:40

Að standa við loforðin

Nú styttist í að ár sé liðið frá falli WOW air. Þær fréttir voru að vissu leyti mikið áfall fyrir Suðurnesin og nokkuð ljóst að fallið myndi hafa veruleg áhrif á atvinnulíf á svæðinu. Viðbrögð stjórnvalda voru nokkuð fyrirsjáanleg, settir voru á fót alls kyns hópar sem áttu að fara yfir áhættu af kerfislega mikilvægum fyrirtækjum með fulltrúum ráðuneyta, viðbúnaðarhópar voru settir á fót, aðgerðahópar voru virkjaðir og boðaðar áætlanir í samstarfi við heimamenn. Það var allt saman svo sem gott og blessað í sjálfu sér. Ég viðurkenni að ég var bjartsýn um að loksins væri komin þverpólitísk sátt um að leiðrétta þá vanrækslu sem hefur átt sér stað á innviðum svæðisins um árabil með myndarlegri innspýtingu af hálfu stjórnvalda.

Hvað svo?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

En hvað svo? Hver er staðan nú, hartnær ári frá falli WOW air? Hefur þessi víðtæka átaksvinna sem ríkisstjórnin boðaði skilað tilætluðum árangri? Blákaldur raunveruleikinn er sá að nýjar tölur frá Vinnumálastofnun gefa til kynna að atvinnuleysi á Suðurnesjum sé um þessar mundir um 9% samanborið við 5% í september 2019 og 4% í upphafi árs 2019. Hvað varðar aðra innviði þá blasir við heldur dapurleg sjón.

Öruggar samgöngur eru forsenda fyrir sterku atvinnulífi og eflingu innviða. Það gildir jafnt um Suðurnesin sem önnur svæði. Reykjanesbrautin er sérstök, hún er aðalinngangurinn fyrir okkur sem einstaklinga en ekki síður lífæð helstu atvinnugreinar landsins, ferðaþjónustunnar. Umferð á Reykjanesbraut hefur tvöfaldast á sex árum. Það þarf að klára tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Punktur. Ekki árin 2025–2029 eins og gert er ráð fyrir í nýrri samgönguáætlun heldur strax. Eða er það hluti af sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar fyrir svæðið að dvelja með þessa brýnu framkvæmd?

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er lykilstoð hvers samfélags. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er þriðja fjölmennasta heilbrigðisumdæmi á landinu, utan höfuðborgarsvæðisins. Samt hafa fjárframlög til stofnunarinnar ekki verið í samræmi við umfang og íbúafjölda um árabil. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 fékk stofnunin enn og aftur minnstu aukningu í fjárframlögum umfram fólksfjölgun. Ekki hefur heldur verið horft til íbúasamsetningar við ákvörðun fjárframlaga. Að auki fá Suðurnesin lægsta framlag á hvern íbúa til heilsugæslu. Er það hluti af sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar fyrir svæðið?

Almannaöryggi og löggæsla er annað dæmi um mikilvæga öryggisstoð sem ekki má vanrækja. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum er stærsta embætti lögreglunnar utan höfuðborgarsvæðisins. Álagið hefur stóraukist síðastliðin ár vegna fjölgunar ferðamanna og íbúa á svæðinu. Á sama tíma hafa fjárframlög til embættisins aukist hlutfallslega minna en hjá öðrum embættum. Er það hluti af sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar fyrir svæðið?

Innantóm loforð

Staðreyndin er sú að íbúum hefur fjölgað hlutfallslega mest á Suðurnesjum frá árinu 2013, eða um tæp 30%. Það hafa því tæplega 6500 manns flutt á svæðið á þessum skamma tíma. Að auki er hlutfall erlendra ríkisborgara hærra hjá íbúum Suðurnesja en almennt tíðkast á landinu öllu, eða um 23%. Þegar ríkisvaldið horfist ekki í augu við allar þessar staðreyndir og lætur ekki framlög fylgja í samræmi við þær kallast það vanræksla. Það þýðir lítið að koma og lofa öllu fögru á meðan að kastljósið beinist tímabundið að svæðinu fyrir fimm mínútur að fréttafrægð, líkt og gerðist hjá ríkisstjórninni í fyrra – en klára svo ekki málin þegar á hólminn er komið.

Tækifærin á Suðurnesjum eru nefnilega mörg og fjölbreytt ef svæðinu er gefið svigrúm til að nýta þau. Það þarf að ráðast í aðgerðir, taka ákvarðanir um raunverulega framtíðarsýn og innviðauppbyggingu á svæðinu og láta hendur standa fram úr ermum. Það þarf ekki fleiri átakshópa til að komast að þeirri niðurstöðu, eða hvað?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
formaður Viðreisnar.