Aðsent

Að láta verkin tala  fyrir atvinnulífið
Fimmtudagur 23. september 2021 kl. 09:39

Að láta verkin tala fyrir atvinnulífið

Það er sorglegra en tárum tekur að horfa upp á það að loks þegar atvinnutækifærin bjóðast í þúsundavís skortir verulega á að atvinnulaust fólk skili sér til baka í gömlu störfin. Það voru allir miður sín yfir stöðunni á vinnumarkaði þegar störfunum fækkaði vegna kórónuveirufaraldursins. Ríkisstjórnin kom með hvert úrræðið af fætur öðru til að milda tekjumissi heimila og fyrirtækja. Margt var mjög vel gert og heppnaðist vel en eðlilega hittu ekki allar aðgerðir í mark. Oft var skammur tími og mikill hraði í öllum viðbrögðum.

Tala fyrir störfum

Störfin sem töpuðust í kórónuveirufaraldrinum voru verðmæt, gjaldeyrisskapandi störf. Þetta eru störfin sem standa undir tekjum þjóðarinnar og skipta okkur gríðarlega miklu máli. Þess vegna er það áhyggjuefni að fólkið skili sér ekki til baka í þau störf. Greiðsla atvinnuleysisbóta er neyðarráðstöfun í hverju tilfelli og á aldrei að koma í veg fyrir að fólk taki aftur við störfum sínum þegar þau bjóðast á ný. Gjaldeyrisskapandi störf eru undirstaða velmegunar í landinu. Ég hef alla tíð talað fyrir verðmætaskapandi störfum í landinu og hef í ræðum og greinum fjallað um þau mál. Ég hef bent á leiðir, komið fram með tillögur um ný störf og verkefni sem geta skapað störf. Það er verkefni þingmannsins að benda á leiðir og tala fyrir nýjum störfum.

Suðurnesjalína 2

Trúr þeirri sannfæringu minni að verðmætaskapandi störf séu grunnur að velferð heimilanna og samfélagsins lagði ég fram lagafrumvarp um að framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Það er lykillinn að frekari uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum og eina leiðin til að fjölga hér atvinnutækifærum. Ekkert eitt verkefni er mikilvægara um þessar mundir fyrir fjölbreyttara atvinnulíf og orkuskipti á Suðurnesjum en að Suðurnesjalína 2 rísi sem fyrst.

Það er verkefni okkar allra að vinna saman að bættum kjörum og betra lífi fyrir okkur öll. Það gerum við með því að fjölga atvinnutækifærum á Suðurnesjum og manna þau störf sem þegar eru laus. Tökum höndum saman og setjum kraft í atvinnulíf svæðisins á ný.

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.