VF í 30 ár: Símstöðin uppiskroppa með símanúmer – hugað af stækkun húsnæðis vegna númeraskorts

Það var nú meira ástandið á símstöðinni í Keflavík á vordögum árið 1981 eins og sjá má á forsíðu Víkurfrétta 9. apríl.

Sagt er frá því þegar símstöðin var að verða uppiskroppa með símanúmer og að biðin eftir nýju símnúmeri gæti orðið um eitt til tvö ár. Víkurfréttir tóku viðtal við Björgvin Lúthersson, símstöðvarstjóra á þessum tíma.

„Nú er verið að athuga hvort möguleiki sé á lausum númerum vegna einhverra sem ekki hafa tekið númer sem úthlutað var fyrir ári síðan,“ sagði Björgvin en aðfluttir gátu ekki flutt númerin sín þá eins og hægt er í dag.

Fjöldi númera á stöðinni var 3000 en þáverandi húsnæði gat bætt við sig 1000 númerum til viðbótar. Stækkunin stækkun var gerð á stöðinni nokkrum árum áður og átti sú stækkun að duga til ársins 1984, en það var greinilegt að eitthvað hafði misreiknast hjá þeim.

Fleiri áhugaverðar fréttir eru á forsíðu VF í þessu blaði frá 9. apríl 1981. Þar efst á forsíðu er frétt um að þremur skipverjum hafi verið sagt upp í hefndarskyni. Einnig er frétt um þegar Hitaveitan brást mönnum í verulegum kulda sem var á landinu og mynd er af sóðaskap sem var hjá fyrirtækinu Miðnesi hf. í Sandgerði.

siggi@vf.is