VF í 30 ár: Rondey réðist upp í stúku

Það muna sjálfsagt margir körfuboltaáhugamenn eftir frægu atviki sem átti sér stað í úrslitakeppninni í körfubolta árið 1992. Þá mættust Keflvíkingar og Njarðvíkingar einu sinni sem oftar í leik þar sem allt ætlaði upp úr að sjóða.

Eftir sigur Njarðvíkinga í leiknum var Rondey Robinson, erlendur leikmaður þeirra grænklæddu, sigri hrósandi fyrir framan stúku þar sem Keflvíkingar sátu vanalega. Einn stuðningsmanna Keflvíkinga virtist ekki par sáttur við fagnaðarlæti Njarðvíkingsins og sendi honum „fingurinn.“ Rondey svaraði í sömu mynt og tók þá einn unglingspilturinn upp á því að hrækja á Rondey. Út frá því varð allt vitlaust og litlu munaði að til slagsmála kæmi.

Félagi Rondey af Keflavíkurflugvelli sem virtist áberandi ölvaður ætlaði að koma honum til bjargar og þurfti fílhrausta gæslumenn til þess að skakka leikinn.

Nánar má lesa um málið, sem vakti mikla athygli í samfélaginu á sínum tíma, hér að neðan en sjá má íþróttasíðu Víkurfrétta frá 20. febrúar 1992.