VF í 30 ár: Reiði vegna nafngiftar Reykjanesbæjar

Rúnar Júlíusson setur Skólaveg 12 á sölu

Forsíða Víkurfrétta var söguleg þann 17. ágúst árið 1995 svo ekki sé minna sagt. Þá var nafnið Reykjanesbær samþykkt á fundi bæjarstjórnar Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, en bæjarfélögin höfðu sameinast árinu áður.

Fjölmargir bæjarbúar mættu á bílum sínum fyrir bæjarstjórnarfund og þeyttu bílflautur sínar í mótmælaskyni gegn nýja nafninu. Í kosningum um vorið 1995 hafði nafnið Reykjanesbær fengið 55% atkvæða, Suðurnesjabær fékk 45% en rúmlega 71% atkvæða voru ógild.

Drífa Sigfúsdóttir forseti bæjarstjórnar á þessum tíma lagði til á fundinum að nafn bæjarsins yrði Keflavík-Njarðvík, eða þá að gerð yrði könnun meðal íbúa um nöfnin Suðurnesjabær, Reykjanesbær eða Keflavík/Njarðvík. Loks var nafnið Reykjanesbær samþykkt með níu atkvæðum gegn tveimur þrátt fyrir hávær mótmæli bæjarbúa sem voru fjölmargir viðstaddir fundinn.

Á forsíðu þennan sama dag segir frá því að Rúnar Júlíusson hafi sett húsið sitt við Skólaveg 12 í Keflavík á sölu. Rúnar hafði heitið því að flytja frá bænum ef Keflavíkurnafninu yrði hent á dyr. „Ég get ekki búið við bæjarstjórn sem fyrirlítur lýðræði,“ sagði rokkarinn í samtali við Víkurfréttir árið 1995.

Á forsíðinni er svo vitnað í Kristján Gunnarsson bæjarfulltrúa þar sem hann segir: „Hefði ekki verið gert í Sovíet,“ en fjallar var ítarlega um nafnamálið í blaðinu þessa vikuna.

Hér að ofan má sjá fréttina um fundinn sem birtist á baksíðu Víkurfrétta þennan dag en forsíðuna má sjá hér að neðan.