VF í 30 ár: Jóhann Birnir slær í gegn hjá Watford

„Ég man að ég var varamaður í leiknum, en maðurinn sem var í minni stöðu meiddist svo að ég vissi eiginlega að ég væri að fara að spila,“ segir Jóhann Birnir Guðmundsson leikmaður Keflavíkur þegar blaðamaður rifjar upp fyrir Jóhanni gamalt viðtal sem birtist í Víkurfréttum þann 29. október 1998 eftir að Jóhann hafði leikið sinn leik í byrjunarliði Watford í ensku 1. deildinni og verið kjörinn maður leiksins. Jóhann sem er 33 ára í dag var rúmlega tvítugur og að stíga sín fyrstu skref á farsælum 10 ára atvinnumannaferli en hann lék í Noregi og Svíþjóð auk Englandi.

„Þjálfarinn lét mig vita á fimmtudeginum að ég væri í byrjunarliðinu svo ég gæti nú látið fjölskylduna vita og þau gætu hugsanlega komið á leikinn. Pabbi flaug út og ég var orðinn nokkuð stressaður þegar leikurinn byrjaði.“

„Svo gekk þetta bara svona vel og ég skoraði bæði mörkin í 2-2 jafntefli. Það var sungið þarna Guddi og iceman og eitthvað þannig og það var bara mjög gaman. Maður var svo ungur og áhyggjulaus á þessum tíma. Í næsta leik var ég svo á bekknum því við áttum erfiðan útileik og maðurinn sem hafði meiðst var búinn að jafna sig. Ég skildi það svo sem því ég var rétt tvítugur og að stíga mín fyrstu spor en ég fékk fleiri tækifæri fram að jólum.“

Watford lék í 1. deildinni á þessum tíma og Jóhann segir liðið hafa verið um miðja deild framan af móti en í lokin hafi þeir tekið svakalega rispu og sigrað 10 síðustu leiki sína og rétt komist í úrslitakeppni um sæti í úrvalsdeildinni. „Við vinnum svo úrslitakeppnina og förum upp í úrvalsdeildina, en ég hafði komið til liðsins árið áður þegar þeir höfðu nýlega sigrað 2. deildina. Liðið fór því upp um deild tvö ár í röð.“

Jóhann spilaði svo heilt tímabil í úrvalsdeild með Watford þar sem hann fékk ekki mörg tækifæri í byrjunarliðinu. „Það var ógeðslega gaman að vera í úrvalsdeild og upplifa allt í kringum þetta. Að fara á Old Trafford og þessa staði, við unnum t.d. Liverpool á Anfield sem var virkilega gaman. Þetta var hrikalegt ævintýri en fótboltalega séð þá leið mér mun betur í Svíþjóð og Noregi.“

„Grahame Taylor fyrrum landsliðsþjálfari Englands var þjálfari minn á þessum tíma og hann var bara grjótharður Englendingur sem vildi helst láta negla boltanum fram og alltaf þegar ég fékk boltann á kantinum þá átti ég alltaf að gefa hann fyrir, það var mitt hlutverk.“

Með Jóhanni í Watford lék m.a. Ronnie Rosenthal sem áður gerði garðinn frægan með Liverpool og Tottenham. „Hann söng sitt síðasta hjá okkur. Hann gat vart orðið hlaupið karlinn og mætti alltaf síðastur á æfingar en hann hafði boltann enn í sér. Svo var þarna Tony Daily gamall vængmaður Aston Villa og svo kemur Heiðar Helguson til okkar á miðju tímabili í úrvalsdeild. Það mætti í raun segja það að af þessum leikmönnum þá hefur Heiðar átt hvað farsælastan feril. Við lékum aðeins saman og höfðum áður leikið saman með yngri landsliðum Íslands og þekktumst því. Það var frábært að fá annan Íslending til liðsins en annars var ég mikið í sambandi við Hauk Inga sem var hjá Liverpool á þessum tíma,“ segir Jóhann að lokum. Það var augljóst að Jóhann minnist þessa tíma með hlýhug og segir þetta hafa verið frábæran tíma og ómetanlega lífsreynslu.