VF í 30 ár: Íkveikja á Hjallavegi og Örvar er efnilegastur

Daginn fyrir uppstigningardag árið 1991 komu Víkurfréttir út en meðal efnis í blaðinu var Íkveikja á Hjallavegi í Njarðvík og ungir íþróttamenn af Suðurnesjum gerðu það gott.

Eldur kom upp í sameign í fjölbýlishúsi við Hjallaveg 5 í Njarðvík og er slökkviliðsmenn komu á vettvang var gangurinn framan við geymslur orðinn alelda og mikinn reyk lagði upp framhlið hússins. Slökkvistarf tók skamma stund en talið var víst að um íkveikju hafi verið að ræða.

Ungir skákmenn öttu kappi í Suðurnesjamóti en þar fóru Keflvíkingar með sigur af hólmi í sveitakeppni með 22 vinninga en Garðbúar komu næstir með 17 1/2 vinning. Í eldri flokki sigraði Arnbjörn Barbato frá Keflavík en hjá yngri keppendum sigraði Atli Már Ólafsson frá Njarðvík.

Í íþróttum þennan dag er einnig fjallað um lokahóf yngri flokka Njarðvíkur í körfubolta en þar ber helst að nefna að Örvar Þór Kristjánsson hlaut Elfarsbikarinn sem afhentur var í annað sinn í minningu Elfars Þórs Jónssonar en áður hafði Ægir Gunnarsson hlotið bikarinn. Örvar er enn á fullu í boltanum en heldur sig núna á hliðarlínunni sem þjálfari Fjölnismanna í úrvalsdeildinni.