VF í 30 ár: Eitt besta tjaldstæði landsins í Reykjanesbæ

Stekkur tekinn í notkun árið 1993

Þann 27. maí árið 1993 birtist í Víkurfréttum grein þar sem fjallað er um nýtt sameiginlegt tjaldstæði Keflvíkinga og Njarðvíkinga. Tjaldstæðinu var gefið nafnið Stekkur. Nafnbótin þótti eiga vel við þar sem nágrannaerjur (slagsmál) Njarðvíkinga og Keflvíkinga áttu sér yfirleitt stað við Stekkjarhamar neðan við gömlu Fiskiðjuna. Samkvæmt greininni er um að ræða eitt besta tjaldstæði landsins.

Bæjarfélögin höfðu þarna árið 1993 nýlega sameignað ferðamálanefndir sínar en sameining bæjarfélaganna átti sér ekki stað fyrr en um ári síðar. Starfsemi Stekks var svo hætt árið 2004 en fyrirhugað var að byggja þar íbúðarhús en tjaldstæðið var staðsett við Krossmóa.

Á forsíðu Víkurfrétta þennan dag má einnig sjá mynd af Sigrúnu Gróu Magnúsdóttur sem þá hafði verið kosin Fyrirsæta Suðurnesja, ásamt öðrum fréttum. Forsíðuna má sjá hér að neðan.