VF í 30 ár: Braust inn á fylleríi og stal 70 þús. kr. – skilaði þýfinu í þynnkunni

Hann fékk heldur betur móral þjófurinn sem var á fylleríi í Keflavík á vordögum 1983 eins og sjá má á forsíðu Víkurfrétta 5. maí.
Sagt er frá þjófi, ungum manni, sem braust inn í verslunina Safír og stal þar skartgripum fyrir um 70 þús. kr. Þegar hann vaknaði morguninn eftir skilaði hann þýfinu til lögreglunnar sem hafði ekki fengið vitneskju um málið.

Fleiri áhugaverðar fréttir eru á forsíðu VF í þessu blaði frá 5. maí 1983. Þar er efst á forsíðu frétt um að sex Íslendingar hafi verið handteknir með hass í herstöðinni Rockville í Sandgerði.

Frétt er um byggingu fjölbýlishúsa á vegum Húsagerðarinnar, m.a. frá gangi mála við byggingu hins glæsilega fjölbýlishúss við Hólmgarð 2. Þá er fjallað um að Suðurnesjamenn eigi að ganga fyrir í vinnu við undirbúningsframkvæmdir í Helguvík.