Sparaðu tímann og taktu upp símann!

Vorið 1989 kynnti Sparisjóðurinn í Keflavík byltingarkennda nýung í bankaþjónustu með heilsíðu auglýsingu í Víkurfréttum. Þar er kynntur til sögunnar svokallaður símabanki, sem allir áttu að geta notið, óháð stað og stund og sparað sér þannig tíma og fyrirhöfn, eins og segir í auglýsingunni. Þetta er auðvitað löngu áður en heimabankar í heimilistölvum komu til sögunnar.

Í hinum nýtískulega símabanka gátu viðskiptavinir Sparisjóðsins hringt í ákveðið símanúmer og fengið margvíslegar upplýsingar um viðskipti sín í bankanum, hvar sem er og hvenær sem er, eins og segir í auglýsingunni.  Tekið er fram að tónvalssíma þurfti til að viðskiptavinir geti notið þessarar framúrstefnulegu þjónustu.

Í símabankanum var hægt að fá upplýsingar um stöðu reiknings, upplýsingar um síðustu færslu reiknings, leggja inn beiðni um millifærslu og fá sparisjóðsfréttir.