LÍF bjargar 10 af grindvískum netabáti

Björgunarþyrlan TF-LÍF bjargaði tíu manna áhöfn netabátsins Þorsteins GK 16, sem strandaði undir Krísuvíkurbjargi í mars 1997. Frá þessu var greint á forsíðu og innsíðum Víkurfrétta þann 13. mars það ár.


Skipið rak vélarvana upp í stórgrýtta fjöruna en áður en það gerðist náði áhöfn björgunarþyrlunnar að bjarga áhöfn skipsins.


Skipsstjórinn á Þorsteini GK tilkynnti að skipið væri vélarvana kl. 14.40. Ankerum var kastað en þegar annað þeirra slitnaði kl. 15:39 var ákveðið að flytja áhöfnina frá borði. Sex menn voru hífðir um borð í þyrluna en skipstjórinn og þrír til viðbótar freistuðu þess áframa að bjarga skipinu með astoð Freys GK sem var skammt undan.


Þegar seinna ankerið slitnaði voru skipverjarnir fjórir hífðir um borð í þyrluna.


Björgunarbátar fóru bæði frá Grindavík og Þorlákshöfn á vettvang undir Krísuvíkurbjargi. Einnig var björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein sent af stað frá Sandgerði. Það fékk hins vegar á sig brotsjó suður af Hafnabergi og snéri eftir það aftur til hafnar í Sandgerði, enda þá búið að bjarga öllum skipverjum af netabátnum.


Áhöfn Þorsteins GK var þannig skipuð að skipsstjóri var Ásgeir Magnússon, Sveinn Arnarsson var fyrsti stýrimaður, Gunnar Einarsson yfirvélstjóri, Helgi Hrafnsson 2. vélstjóri, Árni Helgason matsveinn og hásetarnir Daníel Eyjólfsson, Þórarinn Sigvaldason, Vilhelm Arason, Kristján Ásgeirsson og Ólafur Vilberg Sveinsson.