Jóhann Árni skoraði 89 stig

Býður einhver betur?

Njarðvíkingurinn Jóhann Árni Ólafsson náði þeim fáheyrða árangri að skora heil 89 stig í leik UMFN og Hauka í unglingaflokki í körfuknattleik í dag, Skemmst er frá að segja að leikurinn var allan tímann í höndum Njarðvíkinga, sem léku á heimavelli og endaði 143-79. Svo hljóðar frétt sem birtist á vef Víkurfrétta þann 22. október árið 2005.

Jóhann Árni sem nú leikur með meistaraflokki Grindavíkur var þarna 19 ára gamall og einn efnilegasti leikmaður landsins. Hann hefur nú átt farsælan feril í efstu deild með Njarðvíkingum og Grindvíkingum þar sem han hefur unnið fjölda titla. Keflvíkingurinn Magnús Gunnarsson vakti athygli í vikunni þegar hann skoraði 60 stig í leik með b-liði Keflvíkinga. Við á Víkurfréttum rifjum því í kjölfarið upp þessa gömlu frétt þar sem segir frá stórleik Jóhanns Árna.

Jóhann gerði 19 stig í fyrsta leikhluta gegn Haukum þennan dag. Hann bætti um betur í öðrum leikhluta þegar hann gerði heil 30 stig og voru úrslitin löngu ráðin þegar blásið var til hálfleiks, staðan 81-35. Í seinni hálfleik skoraði Jóhann svo 40 stig, hvorki meira né minna. Jóhann skoraði 52 stig úr tveggja stiga skotum, 39 stig skoraði hann úr þriggja stiga skotum, 13 af 20 tilraunum. Alls skoraði hann 8 stig úr vítaskotum en Jóhann misnotaði 7 vítaskot í leiknum.

Erfitt er að segja til um hvort nokkur leikmaður í yngri flokkum hefði skorað meira, þar sem tölfræðiskráningu er ábótavant. Þó hafa fleiri stig verið skoruð í meistaraflokki, en fyrrum Njarðvíkingurinn Danny Shouse fór yfir 100 stiga múrinn í 2. deild karla árið 1979 þegar hann lék með Ármenningum.

Ef körfuboltafróðir vita um álíka afrek eins og hjá Jóhanni og Magnúsi þá má endilega hafa samband á póstinn okkar vf@vf.is.