Hræddist ekki karlmennina

Í október 1988 birti Víkurfréttir viðtal við Margréti Ágústsdóttur sem þá hafði verið ráðin framkvæmdastjóri Aðalstöðvarinnar. Þrír karlmenn höfðu gegnt þessu starfi í 40 ára sögu Aðalstöðvarinnar og var Margrét því fyrsta konan til að gegna stöðunni. Eins og sjá má á myndinni sem fylgdi greininni þá hefur ýmislegt breyst á þessum árum sem liðin eru frá því hún var tekin. Gafl hússins prýddi ávallt stór, máluð veggmynd en nú hefur verið byggt við endann á húsinu þar sem Dominos-pizzur eru til húsa. Bensíndælurnar eru horfnar sem og skyggnið. Í baksýn grillir í byggingu dekkjaverkstæðisins sem hvarf af sjónarsviðinu í eldsvoða fyrir nokkrum árum.