Fyrsta forsíða Víkurfrétta 1980: 550 manns misstu atvinnuna

Fyrsta tölublað Víkurfrétta kom út 14. ágúst 1980 og á fyrstu forsíðunni er frétt um að 550 manns hafi misst atvinnuna þegar frystihús á svæðinu lokuðu yfir sumartímann. Þrátt fyrir það voru eingöngu skráðir um 100 manns á atvinnuleysisskrá.

„Ekki er laust við að manni finnist eitthvað bogið við þá atvinnuleysisskráningu þar sem aðeins 100 nöfn eru á lista þegar rúmlega 500 manns missa atvinnuna. Það hlýtur að vera orðið tímabært að breyta þessu skráningarfyrirkomulagi þannig, að þegar verið er að tala um fjölda atvinnulausra þá sé átt við þá sem eru atvinnulausir en ekki aðeins þann minnihluta sem á rétt á bótum,“ segir í einni af tveimur aðal forsíðufréttum blaðsins.
Hin aðal forsíðufréttin er um aldur fiskiskipa sem höfðu verið keypt til Keflavíkur eða Njarðvíkur en fréttaskrifara þótti þau ansi gömul en meðalaldur þeirra var 32 ár. Í smærri fréttum var sagt frá stoppi á útgáfu Suðurnesjatíðinda sem voru forveri VF, af ráðningu aðstoðar kaupfélagsstjóra og að lokum frétt um ágengi Svartbaksins. Sjá má fyrstu forsíðuna og fleiri gamlar fréttir á vf.is.


Afmæli hjá VF í ár
Víkurfréttir fagna 30 ára útgáfuafmæli í ágúst nk. Af því tilefni munum við rifja upp eldri fréttir sem hafa birst í öll þessi ár á netsíðu okkar, vf.is (undir heitinu „Víkurfréttir í 30 ár“) og einnig í blaðinu. Þá er stefnt að útgáfu afmælisblaðs á árinu. Einnig er unnið að skönnun eldri tölublaða Víkurfrétta, frá stofnun þeirra og stefnt að því að gera það efni aðgengilegt á Víkurfréttavefnum.
Auk 30 ára afmæli prentútgáfu Víkurfrétta þá er vefmiðill blaðsins, vf.is 15 ára og vefsíðan kylfingur.is 5 ára.