Dagfari GK fékk brotsjó við Reykjanes

Loðnuskipið Dagfari GK 70 frá Sandgerði fékk á sig brotsjó með fullfermi af loðnu í haugasjó og tólf vindstigum grunnt út af Reykjanesi þann 21. febrúar árið 1996. Gluggar brotnuðu í brú og siglingatæki skipsins urðu óvirk. Fjórtán manns voru í áhöfn Dagfara og slasaðist einn þeirra lítillega þegar brotið reið yfir.

TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, sveimaði yfir Dagfara allt þar til varðskipið Týr kom á vettvang um kl. 11 um morguninn en það var Halldór Nellett hjá Landhelgisgæslunni sem tók meðfylgjandi mynd um 10 leytið um morguninn, um klukkustund áður en varðskipið kom.

Skipin héldu sjó fram eftir degi en Dagfara var fylgt til hafnar í Keflavík, þangað sem hann kom daginn eftir.

Ölduhæð var þar allt að 16 metrar þegar veðrið var hvað verst. Eins og sjá má á myndinn hefur hluti af loðnunótinni fallið útbyrðis en skipverjar náðu henni um borð aftur.