„Hugarfar, metnaður og vilji kemur manni langt“

„Þessi titill var mikill heiður og stoltið var mikið þegar maður kom aftur í skólann,“ sagði Eðvarð Þór Eðvarðsson en hann var kjörinn Íþróttamaður ársins árið 1987 en hann er annar Suðurnesjamaðurinn sem hefur hlotið titilinn. Hinn er Guðni Kjartansson, knattspyrnumaður og fyrirliði gullaldarliðs Keflavíkur á árunum 1969 til 1973.

Eðvarð Þór var sundmaður UMFN og setti hann fjöldan allan af Íslandsmetum í mismunandi greinum. Helstu afrek hans voru að komast í úrslit á heimsmeistaramóti, 3. sæti á Evrópumóti og norðurlandamet í 200m baksundi. „Mig minnir að ég hafi náð á bilinu 15 til 20 Íslandsmetum en sundlífið var mjög þétt og gott á þessum tíma og mikil þátttaka. Ég fór að æfa frá kl. 6 á morgnanna og ætli ég sé ekki fyrsta kynslóðin sem byrjaði á morgunæfingum. Ég var að æfa sirka 9-10 sinnum í viku og fyrir stóru mótin fóru æfingar allt uppí 12 skipti í viku en þetta var bara eins og góð vinnuvika,“ sagði Eðvarð.

Aðstæður eru mun betri í dag fyrir flestar íþróttir en hún var í þá daga. Eðvarð æfði allt til 16 ára aldurs í 12,5m laug í Njarðvík en fékk svo leyfi til að fara upp á völl og æfa 1-2 sinnum í viku í 25m laug. „Það var auðvitað betra að æfa í stærri laug en það hafði ekki allt að segja. Að mínu mati eru aðstæðurnar í öðru sæti. Hugarfar, metnaður og vilji til að ná langt í íþróttinni er stærsti parturinn í þessu öllu saman og var það sem kom mér á alþjóðamælikvarða.“

Stoltið var mikið þegar Eðvarð Þór kom í skólann eftir að hann hlaut titilinn. „Maður var rosalega upp með sér en ég held að það hafi ekkert geislað af mér.“

Skólinn var stoppaður og allir voru viðstaddir þegar skólastjórinn veitti honum blóm. „Fólk lét mann heldur betur vita að það væri stolt og ég held að það hafi haldið metnaðinum í hámarki. Fólk hvatti mann áfram í þessu og má þakka fyrir það. Sá sem átti stærstan hlut í þessu öllu var auðvitað Friðrik Ólafsson, þjálfari minn en hann var mín hægri hönd og hjálpaði mér mikið. Svo má auðvitað ekki gleyma foreldraráðinu.“

Nú er Eðvarð Þór byrjaður að fikta við golfíþróttina og líkar vel. Hann tók þátt í meistaramóti Golfklúbbs Suðurnesja síðasta sumar og náði í verðlaun í sínum flokki. „Ég er mikill keppnismaður. Golfið er ekki ólíkt sundinu að því leyti að þú ert mikið að keppa við sjálfan þig svo þetta er mjög skemmtilegt.“ sagði Eðvarð.

siggi@vf.is

Viðtal við Eðvarð Þór í Víkurfréttum árið 1987. Víkurfréttir og Prentsmiðjan Grágás styrktu þá Eðvarð um 50 þús. kr.