„Nýir spennandi markaðir opnast“
segir Gunnar Örlygsson hjá IceMar og AG-Seafood
„Það eru mjög spennandi tímar framundan. Að fá Selaska í eigendahóp IceMar og AG-Seafood mun hafa mjög jákvæð áhrif og styrkja alla markaðsstetningu og dreifingu afurða frá Íslandi. Nýju meðeigendurnir eru hrifnir af ábyrgri veiði Íslendinga,“ segir Gunnar Örlygsson, framkvæmdastjóri IceMar sjávarútvegsfyrirtækisins.
Selaska hefur keypt 60% hlut í sölufyrirtækinu IceMar í Reykjanesbæ og fjórðungshlut í AG-Seafood í Sandgerði. Gunnar mun áfram eiga 40% í IceMar og mun einnig eiga 24% hlut í AG-Seafood og Arthur Galvez sem stýrt hefur fyrirtækinu mun áfram eiga 51% í því.
„Við erum að styrkja okkar stöðu á móti stærri aðilum í sjávarútvegi með því að opna á spennandi nýja markaði. Við höfum frá upphafi keypt allt hráefni á fiskmörkuðum þar sem við höfum ekki haft útgerð samhliða vinnslunni og erum eitt fárra fyrirtækja sem hefur lifað af þá erfiðu samkeppni sem fylgir því að vera algjörlega háð fiskmörkuðum með hráefnisöflun. Við erum ekki að selja aflaheimildir heldur fyrst og fremst að stækka markaði okkar,“ segir Gunnar.
Selaska er samvinnufélag þjóðflokkana Tlingit, Haida og Tsimshian en í þeim eru 25 þúsund hluthafar og var stofnað árið 1972. Höfuðstöðvarnar eru í Juneau í Alaska og hefur umsjón með nærri 1500 ferkílómetra af landi sem bandarísk stjórnvöld afhentu þjóðflokkunum árið 1971. Velta fyrirtækisins hefur sexfaldast frá árinu 2015.
Gunnar segir að í framhaldi af þessum viðskiptum eigi hann von á því að umsvifin muni aukast á næstu misserum, m.a. í Bandaríkjunum og Kanada. Ætlunin sé að efla enn frekar uppbyggingu þar.
Í fréttatilkynningu frá Selaska segir að fyrirtækið sé mjög ánægt og spennt fyrir nýju samstarfi við Íslendingana og muni styrkja enn frekar starfsemina og skapi ný tækifæri.