Viðskipti

Zeto á Startup Energy Reykjavík
Eydís Mary Jónsdóttir, umhverfisfræðingur og frumkvöðull hjá Zeto. VF-mynd/hilmarbragi
Þriðjudagur 20. september 2016 kl. 06:00

Zeto á Startup Energy Reykjavík

Nýsköpunarfyrirtækið Zeto tekur þessa dagana þátt í Startup Energy Reykjavík viðskiptahraðlinum. Hjá Zeto er unnið að þróun á lífvirkum húð-, hár- og sápuvörum úr kaldpressuðu þaraþykkni. Fyrirtækin sjö sem fá inngöngu í hraðalinn fá 5 milljónir hvert gegn 10 prósenta eignarhlut sem Arion banki, Landsvirkjun, Nýsköpunarmiðstöð og GEORG eignast í sameiningu. Auk þess fá fyrirtækin sameiginlega vinnuaðstöðu og aðstoð fjölda mentora úr atvinnulífinu, háskólasamfélaginu og orkugeiranum. Hraðlinum lýkur með sérstökum fjárfestadegi þar sem forsvarsmenn fyrirtækjanna kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum.

Þarinn sem notaður er í þykknið hjá Zeto er lífrænt vottaður og unninn hjá Þörungavinnslunni á Reykhólum. Eydís Mary Jónsdóttir, einn frumkvöðlanna að baki Zeto, býr í Reykjanesbæ og því má segja að starfsemin teygi sig víða. Aðferðin við að ná þykkninu úr þaranum er einstök og ekki notuð annars staðar í heiminum. Stefnt er sett á að setja fyrstu vörulínu Zeto á markað á næsta ári.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Startup Energy Reykjavík er á vegum Icelandic Startups sem áður hét Klak Innovit. Hjá Icelandic Startups er haldið utan um íslensku viðskiptahraðlana Startup Reykjavík sem hýsir almenn nýsköpunarfyrirtæki, Startup Energy Reykjavík sem hýsir sprotafyrirtæki í orkugeiranum og Startup Tourism sem er sérstaklega miðaður að ferðaþjónustunni. Viðskiptahraðall (e. business accelerator) er nýtt hugtak á Íslandi og eru þrír hraðlar starfandi, Startup Reykjavík, Startup Tourism og Startup Energy Reykjavík. Hlutverk viðskiptahraðla er að hraða ferlinu sem fyrirtæki fara í gegnum frá því að hugmynd fæðist og þar til viðskipti fara að blómstra. Fyrsti hraðallinn fór af stað sumarið 2012 en Startup Energy Reykjavík bættist í hópinn vorið 2014.