Ýmsar hliðar á bílaleigu-gullæðinu
- dæmi um að ferðamenn hafi drekkt jeppum og stungið af. Annasamt ár hjá bílaleigunni Geysi
„Það hefur verið mikið að gera það er víst. Bæði núna í sumar og í fyrra. En það er svo sem engin nýlunda. Það sem mestu máli skiptir í ferðaþjónustunni er að fá meiri dreifingu, þannig að það sé líka nóg að gera yfir vetrarmánuðina og það er að takast ágætlega,“ segir Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Bílaleigunnar Geysis í Reykjanesbæ.
Margeir segir árið hafa verið annasamt. „En eins og með allan annan rekstur skiptast á skin og skúrir. Umræðan í þjóðfélaginu um bílaleigur er svolítið á gullæðisstiginu. Því er ekki að neita að miklar tekjur eru í bílaleigustarfsemi en kostnaðurinn er líka mjög mikill. Við höfum lent í nokkrum slæmum áföllum í sumar t.a.m. höfum við misst 5 húsbíla í altjón á þessu ári en síðustu 6 ár á undan höfðum við ekki misst einn einasta. Svo er líka alltaf erfitt þegar ferðamenn drekkja dýrum jeppum eða jepplingum í ám, loka kreditkortunum sínum, láta sig hverfa úr landi og við sitjum uppi með skaða sem hleypur á milljónum. Slík atvik koma upp á hverju ári, því miður.
Margeir segir að Geysir segist afar ánægður með samstarf við mörg góð fyrirtæki á Suðurnesjum og það hafi mikið að segja í rekstrinum.
„Við erum með góða samstarfsaðila í Reykjanesbæ eins og Bílbót, Bifreiðaverkstæði Þóris, Bílaflutninga Kristjáns, Bílrúðuþjónustuna, Skiftingu ofl. sem eru alltaf á vaktinni og veita okkur góða þjónustu svo við getum aftur veitt okkar viðskiptavinum góða þjónustu.
Fjölmargir nýir aðilar hafa komið inn á markaðinn á síðustu tveimur árum enda ferðaþjónustan í sókn. Samfara mikilli aukningu ferðamanna þarf nú að manna starfsstöðvar allan sólarhringinn. Við erum með rúmlega 50 manns í vinnu nú í sumar á vöktum en lykillinn af því að allt gangi vel er að vera með gott starfsfólk og það höfum við svo sannarlega.“
Þetta hefur verið algeng sjón á bílaleigunni Geysi í sumar.
Erlendum ferðamönnum gengur misvel með bílana í íslensku umhverfi.