Viðskipti

WOW flýgur til Edinborgar
Þriðjudagur 19. júlí 2016 kl. 10:23

WOW flýgur til Edinborgar

WOW air flaug sitt fyrsta flug til Edinborgar á sunnudag. Flogið verður til Edinborgar tvisvar í viku, á miðvikudögum og sunnudögum út október.

Vel var tekið á móti farþegum úr jómfrúarflugi WOW air til Edinborgar. Þar mætti þeim skoskur sekkjapípuleikari í fullum skrúða sem spilaði skosk þjóðlög við góðar undirtektir nærstaddra, að því er fram kemur í tilkyningu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við erum mjög ánægð með að bæta Edinborg við áfangastaði okkar sem nálgast nú þriðja tug. Þessi borg hefur heillað margan ferðamanninn í gegnum tíðina enda einkennist hún bæði af litríkri menningu og einkar gestrisnu fólki,“ segir Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri WOW air.

„Við bjóðum WOW air hjartanlega velkomin á Edinborgarflugvöll. Ísland er áfangastaður sem nýtur síaukinna vinsælda meðal skoskra ferðamanna,“ segir Gordon Dewar framkvæmdastjóri Edinborgarflugvallar.

Edinborg er höfuðborg Skotlands og einn vinsælasti áfangastaður Bretlandseyjar á eftir Lundúnum. Edinborg er mikil menningarborg en hún hefur vakið athygli fyrir að halda eina stærstu listahátíð heims, Edinburgh Festival Fringe, sem fram fer í ágúst og stendur yfir í 25 daga. Þá skartar Edinborg einnig ríkri sögu auk þess sem hagkvæmt er að versla þar.