WOW air skilar 5,9 milljarða rekstrarhagnaði
— á fyrstu 9 mánuðum ársins 2016
Tekjur WOW air á þriðja ársfjórðungi 2016 námu um 15,3 milljörðum króna sem er 104% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Rekstarhagnaður á þriðja ársfjórðungi (EBITDA) var 4,1 milljarður króna og jókst um 1,7 milljarða á milli ára. Hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi var 3,5 milljarðar króna samanborið við 1,5 milljarða króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi árið 2015.
Tekjur WOW air fyrstu níu mánuði ársins námu 27 milljörðum króna sem er 105% aukning miðað við sama tímabil árið 2015. Rekstarhagnaður án afskrifta á fyrstu níu mánuðum ársins (EBITDA) var 5,9 milljarðar króna samanborið við 2,2 milljarða króna rekstrarhagnað árið 2015. Hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins var 4,4 milljarðar samanborið við 1,5 milljarða króna hagnað árið 2015.
Á þriðja ársfjórðungi flugu 629 þúsund farþegar með WOW air sem eru aukning um 122% á milli ára. Sætanýting á þriðja ársfjórðungi hélst í 90% milli ára þrátt fyrir 153% aukningu í framboðnum sætiskílómetrum.
„Við höfum fjárfest mikið í uppbyggingu WOW air á undanförnum árum og ekki síst fyrir síðastliðið sumar þar sem við bættum við þremur nýjum Airbus A330 breiðþotum og hófum flug til Los Angeles og San Francisco. Til að mæta þessari miklu aukningu höfum við ráðið hundruði starfsmanna á árinu og heildarfjöldi starfsfólks WOW air er að nálgast 700 manns. Þetta er frábært teymi sem á mikinn heiður skilið eftir þrotlausa vinnu síðastliðin 5 ár og endurspeglast það í góðri afkomu félagsins,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air í tilkynningu.