WOW air fór fyrsta flug sitt til San Francisco í dag
WOW air flaug sitt fyrsta flug til San Francisco í dag. Flogið verður fimm sinnum í viku til San Francisco en þrjár nýjar Airbus A330-300 breiðþotur verða notaðar í flug WOW air til vesturstrandar Bandaríkjanna og verða þetta stærstu þotur sem flogið hefur verið í áætlunarflugi til og frá Íslandi.
Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air og Björn Óli Hauksson forstjóri ISAVIA klipptu á borða við hátíðlega athöfn á Keflavíkurflugvelli í tilefni dagsins.
„Við erum sérstaklega stolt af því að geta boðið Íslendingum jafnt sem öðrum upp á flug til San Francisco á hagstæðum kjörum. Við finnum að mikill áhugi er fyrir þessum nýja áfangastað enda sólríkur og fallegur staður sem hefur margt spennandi upp á að bjóða. Nýju Airbus A330 breiðþoturnar eru sérstaklega glæsilegar og það er gaman að geta boðið gestum okkar að stíga um borð í glænýjar og umhverfisvænar flugvélar og njóta ferðalagsins með okkur. Notkun þessara nýju breiðþotna marka ákveðin tímamót í íslenskri flugsögu og það er mikill heiður að fá að taka þátt í því. Þá mun þessi áfangi vera liður í því að festa okkur í sessi sem eitt öflugasta lággjaldaflugfélagið yfir Atlantshafið. Það er því ljóst að við munum lenda í San Francisco með bros á vör og horfum björtum augum fram á við,“ segir Skúli Mogensen.
San Francisco er einn af tveimur áfangastöðum WOW air á vesturströnd Bandaríkjanna en í næstu viku, 14. júní, hefst einnig flug til Los Angeles og flogið verður þangað fjórum sinnum í viku.