WOW air flýgur til Pittsburgh
Í dag hóf WOW air sölu á flugsætum til Pittsburgh í Bandaríkjunum en félagið mun hefja áætlunarflug þangað þann 16. júní. Flogið verður fjórum sinnum í viku, á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum, allan ársins hring.
Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingum býðst beint flug til Pittsburgh. Borgin er sú önnur stærsta í Pennsylvaníu ríki og sú tuttugusta í Bandaríkjunum. Borgin hefur meðal annars verið kölluð borg brúanna en í Pittsburgh eru hátt í 500 brýr. Mikill uppgangur er í Pittsburgh en undanfarin ár hefur borgin verið valin af The Economist sem ein þeirra borga í Bandaríkjunum þar sem best er að búa. Þá hefur borgin einnig verið valin sem ein sú öruggasta. Pittsburgh er heimili fjölmargra háskóla og listasafna eins og til dæmis Andy Warhol Museum og Carnegie Museum of Art.
„Í kjölfar mikillar velgengi vestanhafs höfum við ákveðið að bæta Pittsburgh við ört stækkandi leiðarkerfi okkar. Það er frábært að geta boðið enn fleirum upp á þann valkost að fljúga ódýrt yfir hafið og ég veit að Pittsburgh mun taka vel á móti Íslendingum enda er þetta borg sem sameinar allt það besta sem Bandaríkin hafa upp á að bjóða,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air.
Flogið verður í Airbus A321 vélum og er brottför frá Keflavík kl 15. Flugtíminn er sex og hálfur klukkutími en lent er í Pittsburgh klukkan 17:30 að staðartíma.