WOW air flýgur til Chicago

Í dag hóf WOW air sölu á flugsætum til Chicago í Bandaríkjunum en félagið mun hefja áætlunarflug þangað þann 13. júlí næstkomandi. Flogið verður fjórum sinnum í viku, á mánudögum, miðvikudögum, fimmtudögum og laugardögum til 22. október.
 
Chicago er tíundi áfangastaður WOW air í Norður-Ameríku. Flogið verður í nýjum Airbus A321 vélum til O‘Hare flugvallar, sem er aðeins 27 km frá miðbænum.
Chicago liggur við Michigan-vatn í Illinois-ríki og er þriðja stærsta borg Bandaríkjanna. Íbúafjöldinn er í kringum þrjár milljónir. Borgin hefur að geyma fjölbreytta menningarflóru, fjörugt íþróttalíf, mat frá öllum heimshornum og afar alþjóðlega stemningu. Chicago er einn vinsælasti áfangastaður í heimi en talið er að yfir 50 milljónir ferðamanna sæki borgina heim ár hvert.
 
The Art Institute of Chicago er ómissandi fyrir alla listunnendur og The Magnificent Mile besti staðurinn fyrir verslunarleiðangur. Í Millenium Park er að finna hið fræga listaverk Cloud Gate en þetta silfraða meistarastykki eftir Anish Kapoor hefur fengið viðurnefnið „The Bean“ eða Baunin.
 
Fyrsti skýjakljúfur í heimi var reistur í Chicago á árunum 1884-1885. Enn þann dag í dag býður borgin upp á eitt allra besta útsýni sem um getur en í Willis-turninum er útsýnispallur í 400 metra hæð með glergólfi.
 
Til gamans má geta voru Walt Disney, Ernest Hemingway og Al Capone frá Chicago.
Með þessum nýja áfangastað styrkir WOW air enn frekar leiðakerfi sitt með tengiflugi milli Norður-Ameríku og Evrópu með viðkomu á Íslandi. Markmiðið er að anna mikilli eftirspurn eftir flugi til og frá Norður-Ameríku. WOW air flýgur nú þegar til Washington D.C., Boston, New York, Los Angeles, San Francisco, Toronto og Montréal og mun hefja flug til Miami þann  5. apríl og til Pittsburgh 16. júní næstkomandi.
 
Áfangastaðir WOW air eru nú 32 talsins, 22 innan Evrópu en tíu talsins í Norður-Ameríku.