WOW air flýgur til Brussel
Í dag hóf WOW air sölu á flugsætum til Brussel en flugfélagið mun hefja áætlunarflug þangað 2. júní næstkomandi. Flogið verður til Brussel fjórum sinnum í viku; á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum, allan ársins hring.
Brussel er höfuðborg Belgíu og sú fjölmennasta en þar búa um 1,2 milljónir manna. Þar er töluð bæði franska og flæmska. Á síðustu áratugum hefur Brussel orðið miðstöð fjölmargra alþjóðastofnana á borð við Evrópusambandið og Norður-Atlantshafsbandalagið. Þá er Brussel einnig þekkt fyrir matarmenningu og listalíf en í Brussel eru yfir 80 listasöfn.
„Það er með mikilli ánægju sem við kynnum til leiks nýjan áfangastað innan Evrópu. Brussel sameinar allt það besta sem Evrópa hefur upp á að bjóða. Borgin státar af auðgugri menningararfleið og mikilli grósku í matargerð. Við munum að sjálfsögðu bjóða lægsta flugverðið til Brussel eins og til annarra okkar áfangastaða“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.
Áfangastaðir WOW air eru nú 31 talsins, 23 innan Evrópu en átta talsins í Norður Ameríku. Stutt er síðan nýr áfangastaður á Írlandi, Cork, bættist við ört stækkandi leiðarkerfi WOW air. Síðar í mánuðinum mun hefjast daglegt flug til New York auk þess sem byrjað verður að fljúga til Miami í apríl á næsta ári.