WOW air fjölgar ferðum til Tenerife
WOW air bætir við flugferðum til Tenerife í vetur. Frá og með 19. desember verður flogið þrisvar sinnum í viku, þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga en fram til þessa hefur verið flogið tvisvar sinnum í viku.
Þetta er gert til þess að koma til móts við sívaxandi eftirspurn Íslendinga eftir ferðum til Tenerife í vetur. Mikil aukning hefur orðið á utanlandsferðum Íslendinga á milli ára en samkvæmt talningu Ferðamálastofu hafa 15,7% fleiri Íslendingar farið utan það sem af er ári en á sama tímabili 2016.
Tenerife hefur lengi vel verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga yfir vetrarmánuðina en meðalhitinn þar á veturna er um 20 til 25 stig. Þar er einnig margt að skoða en þriðja hæsta eldfjall heims er á Tenerife.