WOW air aflýsir tímabundið flugi til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco

WOW air mun ekki fljúga til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco yfir vetrarmánuðina og mun félagið aflýsa flugum frá 5. nóvember til byrjun apríl á næsta ári. Þessi ákvörðun var tekin með það að leiðarljósi að ná fram aukinni hagræðingu í rekstri félagsins. Eins og þegar hefur komið fram verður seinkun á afhendingu á tveimur glænýjum Airbus A330neo vélum sem áttu að koma í nóvember en koma núna ekki fyrr en í lok febrúar. Fyrir vikið neyðist félagið til þess að gera breytingar á leiðarkerfi félagsins í vetur. 
 
Síðustu flug til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco verða 5. nóvember. Haft verður samband við alla farþega sem eiga í hlut, þeim boðin endurgreiðsla eða að gera breytingar á ferðahögun sinni án þess að greiða breytingargjald.
 
Flug mun svo hefjast aftur til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco í byrjun apríl 2019.
 
WOW air flýgur til 38 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku og í desember hefst áætlunarflug til Indlands 6. desember. Nýlega bættist Orlando við leiðarkerfi WOW air en flug þangað hefst 18. desember.