WALL STREET Í KEFLAVÍK!
Landsbankinn og Landsbréf í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum héldu námskeið um fjárfestingar á íslenska verðbréfamarkaðinn og á Wall Street í síðustu viku. Þessi „atvinnugrein“ hefur farið vaxandi hér á landi og margir nýta sér veraldarvefinn eða internetið til að kaupa og selja á verðbréfamarkaðinum í gegnum einkatölvuna. Forráðamenn Landsbréfa sem reka Kauphöll Landsbréfa þar sem hægt er að fylgjast með gengi og stöðu verðbréfamarkaðarins á Íslandi sýndu og komu mönnum í skilning um hvernig verðbréfaviðskipti ganga fyrir sig hér á landi - sem og á Wall Street. Ljóst er að þessi markaður fer ört vaxandi en hann er þó mjög ungur hér á landi. Kauphöll Landsbréfa var opnuð fyrir tveimur árum og beint framhald af því var auðvitað viðskipti á Wall Street, frægasta verðbréfamarkaði í heimi.