Vöruverð í verslunum Samkaupa lækkar
— þrátt fyrir kórónuveirufaraldur og lækkað gengi krónunnar
Samkvæmt nýjustu verðlagskönnun ASÍ lækkaði matarkarfan í Nettó um 11% á milli mánaða þrátt fyrir kórónuveirufaraldur og lækkun á gengi krónunnar. Miklar sveiflur voru í verði á matarkörfunni - töluverðar verðhækkarnir í flestum verslunum en lækkanir í sumum. Í verslunum Iceland lækkaði vöruverð í 85% tilvika. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkaupum.
„Við erum afskaplega stolt af því að geta haldið vöruverði svona lágu á þessum tímum íslenskum neytendum til hagsbóta,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, í tilkynningunni. „Það var fyrirséð að einhverjar hækkanir yrðu á innfluttum vörum vegna kórónuveirufaraldursins og lækkunar á gengi krónunnar en þökk sé sterkri stöðu á markaði hefur okkur tekist að lækka verðið á matarkörfunni á milli mánaða.“
Í frétt á heimasíðu ASÍ kemur fram að töluverðar verðhækkanir hafi verið í flestum verslunum en oftast í Krónunni, Bónus, Fjarðarkaup og Hagkaup auk þess sem verð lækkar sjaldnast í þeim verslunum. Miklar verðlækkanir voru hins vegar hjá Iceland en í 85% tilfella lækkaði verð þar en í mörgum tilfellum er um verulegar verðlækkanir að ræða. Þá lækkaði verð einnig í mörgum tilfellum í Kjörbúðinni.
„Um um miðjan mars innleiddum við nýja verðstefnu í verslanir Iceland þar sem allar helstu vörur til heimilisins eru á sama verði og í öðrum helstu lágvöruverðsverslunum landsins. Með kaupum á Iceland sáum við mikil tækifæri að nýta það sterka viðskiptasamband við Iceland í Bretlandi þar sem þeir reka um 1.000 verslanir með um 23.000 starfsmenn. Við ætlum að móta keðjuna að þörfum viðskiptavina okkar og breyta henni í alvöru hverfisverslun. Við sjáum nú fyrstu birtingarmynd þessa í þessari verðkönnun,“ segir Gunnar Egill jafnframt í tilkynningunni.
Þá segir í frétt ASÍ að athygli veki að verð lækki mikið í öllum vöruflokkum í Iceland milli mælinga og er algengt að verð lækki um um 15-20% og í einhverjum tilfellum enn meira. Í mörgum tilfellum lækkar verð einnig í Kjörbúðinni þó einstaka vörur hækki milli mælinga. Í Nettó og á Netto.is lækkar verð í um 40% tilfella en hækkar einnig töluvert í mörgum tilfellum.
Í Hagkaup, Krónunni, Bónus og Fjarðarkaupum hækkaði verð oftast yfir 5% auk þess sem verðlækkanir voru færri en í öðrum verslunum eða í um 10% tilvika, að því er segir á vefsíðu ASÍ.
„Samkaup er að mestu í eigu samvinnufélaga sem hefur það að markmiði að stuðla að góðum og samkeppnishæfum verslunum. Við erum að sjá gríðarlega miklar og margar hækkanir birgja en álagning okkar hefur engu að síður farið lækkandi síðustu vikurnar. Við reynum eftir fremsta megni að halda verði niðri og þá hafa vinsældir netverslunar Nettó gert það að verkum að við höfum komist hjá því að hækka verð. Könnun ASÍ sýnir svart á hvítu að netverslunin okkar er sú langódýrasta í landinu,“ segir Gunnar Egill.
Samkaup reka 61 verslun víðsvegar um landið. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Háskólabúðin, Iceland og Samkaup strax.