Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Vörur geoSilica á markað á Indlandi
Midori mun dreifa vörum geoSilica á Indlandi.
Miðvikudagur 13. júlí 2016 kl. 12:20

Vörur geoSilica á markað á Indlandi

,,Við erum að fara til Nýju Delí núna í lok júlí og erum mjög spennt. Það er ótrúlegt að hafa náð svona langt innan tveggja ára frá því að varan okkar kom á markað. Þetta er algjör draumur,“ segir Fida Abu Libden, framkvæmdastjóri og einn stofnenda nýsköpunarfyrirtækisins geoSilica, á Ásbrú en vörur fyrirtækisins fara senn á markað á Indlandi. Í mars síðastliðnum skrifuðu forsvarsmenn geoSilica undir samning við Midori, sem er fyrirtæki sem sinnir innflutningi og dreifingu á Indlandi.

Samstarf geoSilica og Midori kom til í gegnum starf Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) en það gerði samstarfssamning við Félag kvenna í atvinnulífinu á Indlandi (FICCI) síðasta haust. Í framhaldinu komu fjörutíu athafnakonur frá Indlandi hingað til lands, heimsóttu FKA og kynntust íslenskum konum, fyrirtækjum og vörum. Fida var þeirra á meðal og sýndu indversku konurnar vörum geoSilica mikinn áhuga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sendiherra Íslands á Indlandi mun halda kvöldverðarboð 5. ágúst næstkomandi þar sem íslenskum vörum verður hleypt af stokkunum á indverskan markað í samstarfi við Indo Icelandic Business Associaion og Midori. Þar verða kynntar vörur og þjónusta frá Íslandi og haldin erindi um stöðu kvenna á Íslandi. Sérstök áhersla verður lögð á frumkvöðlafyrirtæki. Midori á í viðræðum við fleiri athafnakonur hér á landi um samstarf.

Á myndinni má sjá  Helgu Steinþórsdóttur, eiganda Mýr design, Fidu Abu Libdeh, framkvæmdastjóra geoSilica, Ágústu Valgeirsdóttur, hjá viðskiptaþróun geoSilica, Shri Sunil K. Agnihotri, frá indverska sendiráðinu á Íslandi, Fe Amor Guðmundsson, hjá viðskiptaþróun geoSilica og Julie Deb, eiganda Midori, dreifiaðila geoSilica á Indlandi.

Íslenskar og indverskar athafnakonur á fundi FKA og FICCI.