Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Þriðjudagur 12. júní 2001 kl. 15:38

Virkt innra gæðaeftirlit

Flutningaþjónusta Gunnars ehf. hefur hlotið GÁMES gæðastimpil sem er merku áfangi í sögu fyrirtækisins og tryggir viðskiptavinum jafnframt betri þjónustu.

Byrjuðu smátt
Flutningaþjónusta Gunnars ehf. var stofnuð árið 1990 og eigendur fyrirtækisins eru hjónin Gunnar Rúnarsson og María Hafsteinsdóttir. „Reksturinn hófst með því að keypt var stöðvarleyfi hjá Landflutningum hf., Skútuvogi 8, Reykjavík ásamt flutningabifreið. Í upphafi vorum við með áætlunarferðir á milli Reykjavíkur og Suðurnesja, að undanskildum Vogum og Grindavík. Í upphafi vorum við með einn bíl í þessum áætlunarferðum en fljótlega fór reksturinn að vinda upp á sig og nokkrum mánuðum seinna var fjárfest í aftanívagni og lítilli sendibifreið. Hún var síðan notuð til að dreifa smápökkum til viðskiptamanna“, segir María.

Skrifstofan flytur
Þau hjónin sáu alveg ein um fyrirtækið fyrstu árin. Gunnar sótti allar vörur til Reykjavíkur í afgreiðsluna hjá Landflutningum og þegar til Keflavíkur kom tók María á móti stóra flutningabílum á litla sendibílunum og sá um að dreifa smápökkunum á meðan Gunnar sinnti öllum þungaflutningi. Að loknum vinnudegi var síðan farið í bókhald og pappírsvinnu sem fylgir því að reka eigin fyrirtæki. Á þriðja ári var ráðinn einn starfsmaður til viðbótar og fyrirtækið stækkaði og umsvifin aukist jafnt og þétt. Í dag eru starfsmenn þess átta. Í janúar 1999 var skrifstofan flutt af heimili þeirra hjóna og afgreiðsla ásamt skrifstofu opnuð í Keflavík.

Hvað er GÁMES?
Frá 1. júlí 1999 hefur fyrirtækið verið með aðstöðu að Hafnargötu 90, í Keflavik (ekið inn í portið Njarðargötumegin). Þar eru nú skrifstofur ásamt 500 m3 vörugeymslu. Þann 5. júní s.l. fékk fyrirtækið síðan GÁMES vottun sem er stórt skref í að fullnægja þörfum viðskiptavinarins að sögn hjónanna.
Skammstöfunin GÁMES vísar í reynd til þýðingar á enska gæðaeftirlitskerfinu Hazard Analysis and Critical Control Point - HACCP (Greining áhættuþátta og mikilvægra eftirlitsstaða). Kjarni GÁMES er skuldbinding um kerfisbundið eftirlit af ýmsu tagi en einnig greining áhættuþátta og mikilvægra eftirlitsstaða. Áhætta í flutningaferlinu er skilgreind og hvernig koma eigi í veg fyrir að viðkvæm matvæli, sem fyrirtækinu er treyst fyrir að flytja á milli áfangastaða, skemmist eða mengist og geti þannig valdið heilsutjóni. Á sama hátt eru skilgreindir gæðaþættir sem til staðar eru í vörugeymslum og flutningaferlinu. Greining á ástandinu stuðlar að því að fyrirbyggja óæskileg og jafnvel skaðleg frávik i flutningunum. Slíkt mat er ekki stundarfyrirbæri heldur virkt tæki í gæðastarfi GÁMES kerfisins.
„Í GÁMES kerfinu er komið inn á allt sem viðkemur meðferð og umgengni við vörurnar sem fluttar eru með bílunum ásamt því að fylgt er ákveðinni áætlun og reglugerð um þrif á húsnæði og bílum fyrirtækisins“, segir Gunnar en þess má geta að Flutningaþjónusta Gunnars ehf., er fyrsta fyrirtæki í flutningageiranum hér að Suðurnesjum sem fær þessa vottun.

Tryggjum öruggan flutning og góða þjónustu
„Fyrirtækið er tekið út af Heilbrigðiseftirliti og gæðastjóra Samskipa, þar sem við erum umboðsmenn fyrir Landflutninga -Samskip hf. Síðan er reglulegt eftirlit haft með fyrirtækinu af báðum þessum aðilum. Stefna Landflutninga - Samskipa hf. er að allar afgreiðslur þeirra og umboðsmenn fái þessa GÁMES vottun“, segir Gunnar en nú þegar hafa fjögur vöruhús Samskipa á Holtabakka í Reykjavík fengið viðurkennt innra gæðaeftirlit, fyrst vöruhúsa á Íslandi. Þá hafa sjö vöruhús Landflutninga-Samskipa á landsbyggðinni fengið viðurkenningu og fleiri vöruhús fyrirtækisins bætast í þennan hóp innan tíðar. Innra gæðaeftirlit hefur einnig verið tekið upp í flutningabílum á vegum Landflutninga-Samskipa.
María undirstrika að stór þáttur í svona þjónustufyrirtæki er gott starfsfólk. „Við höfum verið mjög heppin með starsfólk og það hefur skilað sér í velgengni fyrirtækisins“, segir María. Flutningaþjónusta Gunnars efh. hefur yfir sex bílum að ráða sem sjá um að keyra út vörum til viðskiptamanna með áætlunarferðir kl. 12.00 á hádegi og kl.16:00 síðdegis frá Reykjavík alla virka dag.

Mynd: Bílafloti Flutningaþjónustu Gunnars ehf.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024