Vinsæll harðfiskur úr Grindavík
„Þetta er ódýrasti harðfiskurinn á markaðnum í dag og líklega sá besti, eins og þeir segja í Carlsberg auglýsingunni,” sagði Pétur Gíslason harðfiskverkandi í Grindavík þegar Víkurfréttir litu í heimsókn á dögunum. Pétur hefur rekið harðfiskverkunina Stjörnufisk í 4 ár og segir hann að reksturinn gangi vel. „Við notum bara besta fáanlega hráefnið, nýdregna ýsu sem við handflökum. Síðan roðrífum við hana og röðum henni á grindur og loks er hún sett inn í þurrkklefa. Klefarnir dæla inn hreinu lofti og fiskurinn er í fimm sólarhringa að þorna,” segir Pétur, en eftir að fiskurinn er orðinn þurr er hann valsaður og loks er honum pakkað. Pétur segir að harðfiskur frá Stjörnufiski sé mjög vinsæll og til sölu í öllum helstu verslunum. „Stjörnufiskur fæst í Bónus, Kaskó, Samkaup, Nettó og fleiri búðum. Harðfiskurinn selst mjög vel hérna á Suðurnesjum og það er hringt mikið í mig þar sem fisknum er hrósað.”
Það er í nógu að snúast hjá Pétri því hann framleiðir einnig Mömmu fiskibollur sem hann selur í neytendapakkningum hér á Suðurnesjum. Einnig selur hann saltfisk og ferskan fisk í mötuneyti víðsvegar. Pétur segir að það sé alltaf nóg að gera í Wall Street hverfinu í Grindavík, en hann hefur sett upp skilti fyrir utan hjá sér með þessu þekkta nafni fjármálahverfisins í New York.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Pétur að flaka ásamt félaga sínum Jóni Hjaltasyni útgerðarmanni úr Hafnarfirði sem kemur stundum í heimsókn og aðstoðar við flökun.
Það er í nógu að snúast hjá Pétri því hann framleiðir einnig Mömmu fiskibollur sem hann selur í neytendapakkningum hér á Suðurnesjum. Einnig selur hann saltfisk og ferskan fisk í mötuneyti víðsvegar. Pétur segir að það sé alltaf nóg að gera í Wall Street hverfinu í Grindavík, en hann hefur sett upp skilti fyrir utan hjá sér með þessu þekkta nafni fjármálahverfisins í New York.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Pétur að flaka ásamt félaga sínum Jóni Hjaltasyni útgerðarmanni úr Hafnarfirði sem kemur stundum í heimsókn og aðstoðar við flökun.