Viltu opna gjafavöruverslun á Keflavíkurflugvelli?
Forvalsnefnd utanríkisráðuneytisins f.h. Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hefur auglýst eftir aðilum til að taka þátt í forvali vegna útboðs á rekstri gjafa- og minjagripaverslunar innan varnarsvæðisins. Samingurinn er til tveggja ára með möguleika á framlengingu þrisvar sinnum, til eins árs í senn. Í frétt á vef Reykjanesbæjar segir að forvalsgögn fáist hjá umsýslustofnun varnarmála, Grensásvegi 9, Rvk. og á ráðningardeild varnarmálaskrifstofu, Brekkustíg 39, Reykjanesbæ. Umsóknum skal skilað á sömu staði. Umsækjendur fylla forvalsgögnin út og senda inn en forvalsnefnd utanríkisráðuneytisins áskilur sér rétt til að hafna gögnum sem ekki eru fullnægjandi. Þeim umsækjendum sem uppfylla öll skilyrði er gefinn kostur á að bjóða í verkið. Frestur til að skila forvalsgögnum rennur út 26. apríl n.k. kl. 16:00.