Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Fimmtudagur 30. september 1999 kl. 23:31

VILL FREKAR TÝNA JURTIR EN VINNA VIÐ MARKAÐSMÁL

Viðtal: Silja Dögg Gunnarsdóttir Ljósmyndir: Glúmur Bloomquist Vill frekar týna jurtir en vinna við markaðsmál Hrafnhildur Njálsdóttir tók uppá því fyrir fimm árum að stofna snyrtivörurfyrirtækið Jurtagull í Keflavík. Í bílskúrnum heima hjá sér framleiðir hún nokkrar tegundir af hársnyrtivörum, sápur og fleira, úr íslenskum jurtum. Fyrirtækið hefur gengið vel og hollenska heildsölufyrirtækið Natudis hefur ákveðið að selja Jurtagull í Hollandi, þar sem fyrirtækið rekur 50 heilsuvöruverslanir. Flutti til Danmerkur Hrafnhildur er fædd og uppalinn í Keflavík, dóttir Njáls Skarphéðinssonar og Þóru Helgadóttur. Hún á tvö systkini, Kristínu og Skarphéðinn. Hrafnhildur er lærður hárskeri og rak um árabil sína eigin hárgreiðslustofu í Hátúninu í Keflvík. Hrafnhildur flutti ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Má Eðvarðssyni, til Danmerkur fyrir nokkrum árum. Gunnar fór í nám og Hrafnhildur fékk vinnu á hárgreiðslustofu þar. „Stofan sem ég vann á var með fullt af frægum vörumerkjum og einnig merki sem ég hafði aldrei séð áður. Þær vörur gáfu dýru merkjunum ekkert eftir. Áhugi minn vaknaði þegar ég komst að því að framleiðandi þessarar vöru var hárgreiðslumaður eins og ég. Þarna var bara venjulegur maður eins og ég og ef hann gat þetta þá hlaut ég að geta það líka. Ég var með pælingar í mörg ár hvernig ég ætti að útfæra hugmyndina og það liðu átta ár frá því að hugmyndin kom þangað til framleiðslan var komin á brúsa og uppí hillur. Ég er ósköp fegin að svo langur tími leið því þá gerir maður færri mistök og allt verður fastmótaðra”, segir Hrafnhildur. Við getum allt sem við ætlum okkur Hrafnhildi finnst oft eins og hún hafi verið sett í þetta verkefni og upplifir sig þá til hliðar við þetta allt saman. Hún segir að það sé geysileg vinna að framfylgja ákvörðun sem þessari og það þurfi mikla þrautseigju til að standa í slíku. „Að ganga í gegnum þetta kenndi mér að við getum allt sem við ætlum okkur. Við setjum okkar sjálf takmarkanir, því er um að gera að setja markið bara nógu hátt”, segir Hrafnhildur. Sjálfmenntuð en fékk góða hjálp Það tók tíma að finna réttu uppskriftirnar að vörunum en Hrafnhildur fékk hjálp frá góðu fólki. „Ég er sjálfmenntuð í faginu, prófaði mig bara endalaust áfram. Ég setti mig fljótlega í samband við Kolbrúnu Björnsdóttur grasalækni. Hún er einn mest lærði grasalæknirinn hér á landi og alveg rosalega virk í sínu starfi. Ég hafði mjög skýra mynd af hvernig ég vildi hafa vörurnar og Kolbrún valdi saman réttar jurtir og jurtaolíur, þannig að þær ynnu sem best á hverju vandamáli fyrir sig”, segir Hrafnhildur. Hún segir að henni hafi oft fundist að guð og góðir vættir hafi fylgt sér við að velja réttu hlutina á ferlinum. Auk Kolbrúnar komu efnafræðingar að þróunarvinnunni og Hrafnhildur var líka í góðu samstarfi við dönsk og þýsk efnafyrirtæki. Týnir jurtir um allt Ísland Hrafnhildur unir sér best ein uppá fjöllum með taupokann sinn. Hún týnir sjálf mikið af jurtum sem hún notar í framleiðsluna, eins og vallhumal, blóðberg, mjaðurjurt, baldursbrá, fjallagrös og klóelting. „Eina jurt verð ég að flytja inn, það er brenninetla. Hún vex mjög lítið hér á landi. Ég hef stundum verið að hugsa um að sá fyrir henni en það hefur aldrei orðið af því. Brenninetlan er svo steinefnarík og uppbyggjandi. Ég nota einnig grunnsápuefni í vörurnar, en eingöngu efni úr hæsta gæðaflokki.” Þó að Hrafnhildur sé sjálf mjög dugleg við týnsluna, þá fær hún verktaka um allt land til að týna fyrir sig, því sjálf er hún mjög bundin við fyrirtækið. Framleiðir hársápur og fleira Þeir sem hafa séð vörumerkið Jurtagull í hillum verslana, hafa eflaust tekið eftir því að hársápurnar eru aðalvörutegundin. „Ég hef haldið mig við hársápurnar út af minni fagkunnáttu sem hárskeri, því ég þekki hvað má bjóða hárinu”, segir Hrafnhildur. Hún segist jafnframt hafa viljað framleiða uppbyggilegar og hreinar vörur, úr bestu fáanlegu hráefnum og án allra aukaefna. Hún bætir við að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, því hún framleiðir hvorki meira né minna en fimm tegundir af hársápu. Auk þess býr hún til hárnæringin, íþróttasápu, handunnar sápur og sérstaka olíu sem er bakteríu- og sveppadrepandi. „Reyndar er ég með eina vöru í vöruþróun sem stendur til að setja á markað í haust. Það er sjávarsalt sem er mjög steinefnaríkt, og ég marinera það í jurtaolíu. Hægt er að nota það sem saltskrúbb á skrokkinn í sturtu eða út í baðið.” Bakteríu- og sveppadrepandi undraolía Vörurnar hennar Hrafnhildar eru engar venjulegar snyrtivörur. Jurtaolían frá Jurtagulli er t.d.100% náttúruleg og unnin úr vallhumli, sem er græðandi, sesamolía, sem vinnur vel á þurrki, svo er í henni mikið magn af tee tree olíu sem er bakteríu og sveppadrepandi. Þessi blanda drepur 13 mismundandi gerðir af bakteríum og 27 gerðir af sveppasýkingum. Olían er mikið notuð af þeim sem eru með slæma flösu og flösuexem og psoriasissjúklingum bæði á húðina og í hársvörðinn, og á allar sveppasýkingar. „Við fjölskyldan notum hana meira að segja til inntöku við kvefi og hálsbólgu”, upplýsir Hrafnhildur, „svo er hún er líka góð á sveppasýkingar í leggöngum, barnarassa, fótasveppi, sár o.fl.” Kennir sápugerð og framleiðir kaffisápu Starfsemi Jurtagulls er farin að teyja anga sína út fyrir bílskúrinn á Skólaveginum því tómstundaskólinn Mímir í Reykjavík hefur fengið Hrafnhildi til að taka að sér sápugerðarnámskeið. Hrafnhildur er líka tilbúin til að halda námskeið fyrir fólk á Suðurnesjum ef áhugi er fyrir hendi. Sápugerðarkonan fer inní eldhús og þegar hún kemur til baka er hún með dökkan og grófan klump í hendinn. „Þetta er kaffisápa sem ég framleiði fyrir Kaffitár. Hún er mjög góð á læri, rass og upphandleggi því hún er gróf og örvar blóðrásina. Hún eyðir líka lykt, t.d. ef maður er búin að handleika lauk eða fisk.” Þetta eru aldeilis fréttir, svo það er hægt að búa til sápu úr kaffi. „Ég framleiði líka sápur úr fíflum og fjallagrösum, sem eru mjög mýkjandi”, bætir Hrafnhildur við brosandi. „Jólasápan mín hefur líka verið mjög vinsæl fyrir jólin, en í henni er m.a. kanill.” Skortur á hugmyndaflugi er greinilega ekki vandamál á þessu heimili. Vill frekar týna jurtir en vinna við markaðsmál Að koma nýrri vöru á markað er ekki einfalt mál og þegar Hrafnhildur stofnaði Jurtagull hafði hún ekki úr miklu að moða. Hún hefur því ekki auglýst mikið í fjölmiðlum heldur lagt áherslu á að kynna vörurnar á sýningum víðs vegar um landið. „Ég er ekki nógu dugleg við að hringja í verslanir, mér finnst skemmtilegra að vera í jurtatýnslu eða í framleiðslunni”, segir Hrafnhildur. Þrátt fyrir takmarkaða auglýsingu virðist varan hafa kynnt sig sjálf því salan gengur ágætlega, „hún mætti samt alveg ganga betur”, segir Hrafnhildur og henni finnst sem Íslendingar kunni ekki nógu vel að meta það sem þeir hafa hér heima, og séu að því leyti pínulítið gamaldags. „Við verðum að fara að trúa á það sem við eigum hér og vera stolt af því. Samstarfið við hollenska heildsölufyrirtækið sýnir að við erum engir eftirbátar annarra í framleiðslu á gæðavörum.” Jurtagull í dreifingu í Hollandi Tengingin við Holland var einn af þessum hlutum sem bara gerðist. Það má með sanni segja að guð og góðir vættir séu Hrafnhildi hliðhollir í því sem hún tekur sér fyrir hendur. „Ung kona frá Hollandi hringdi í mig frá Loftleiðum því hún hafði keypt sér hárnæringu og var ofsalega hrifinn af vörunni. Hún spurði mig hvort ég gæti selt henni einn kassa af hárnæringu. Það var auðsótt mál og ég mælti mér mót við hana. Eftir að hún kom aftur til Hollands byrjaði hún að hringja reglulega í mig. Ég skildi þetta ekki alveg og fannst þetta mjög sérstakt. Hún var svo almennileg og sagðist ætla að gera allt sem hún gæti til að koma vörunni á markað í Hollandi. Hún leitaði nokkurra leiða og hafði mikið fyrir því að fá fund hjá Natudis, sem er stórt heildsölufyrirtæki á heilsuvörumarkaðinum í Hollandi. Áður en þeir hjá Natudis tóku ákvörðun um að taka vöruna í dreifingu sendu þeir hana á rannsóknarstofu þar sem hún var tekin alveg niður í frumeindir. Útkoman var alveg fullkomin. Þeir fundu engin aukaefni, sem eru í allflestum vörum af þessu tagi. Ég tel að með þessum samningi geta hlutirnir snúist mér verulega í hag. Svo spyrst þetta út og þá veit maður aldrei. Ég held samt áfram að framleiða í skúrnum svo lengi sem plássið leyfir”, sagði þessi hugmyndaríka og kjarkmikla kona að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024