Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Þriðjudagur 11. desember 2001 kl. 08:38

Víkurfréttir opna kapalsjónvarpsstöð

Víkurfréttir ehf. hafa opnað kapalsjónvarpsstöð í Reykjanesbæ. Stöðin er á kapalkerfi Kapalvæðingar í Reykjanesbæ og næst á um 1500 heimilum í Keflavík og Njarðvík. Samningur um afnot Víkurfrétta af dreifikerfi Kapalvæðingar var undirritaður í síðustu viku.Víkurfréttir hafa verið með tilraunaútsendingar á kapalkerfinu síðustu vikur en nú er útsending á fréttaefni og auglýsingum hafin af fullum krafti. Á stöðinni eru einnig ljósmyndir úr bæjarlífinu, s.s. fréttamyndir og mannlífsmyndir en stöðin er byggð upp eins og upplýsingasjónvarp með skjámyndum. Ekki eru sýnd myndbönd, heldur alfarið byggt á skjámyndum.

Fréttir af vef Víkurfrétta
Fréttaefnið sem birt er í Kapalsjónvarpi Víkurfrétta er unnið upp úr fréttum vf.is. Fréttir á kapalstöðinni eru uppfærðar daglega. Einnig er hægt að senda fréttatilkynningar á póstfangið [email protected]

Auglýsingasjónvarp
Kapalsjónvarpið er byggt upp á fréttum, tilkynningum og auglýsingum. Þannig geta einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir snúið sér til Víkurfrétta í síma 421 4717 ef þau vilja koma tilkynningum eða auglýsingum á framfæri við neytendur á þjónustusvæði Kapalvæðingar.

Auglýsingar eru seldar til lengri eða skemmri tíma. Dagskrárpakkinn sem sýndur er hverju sinni er um 6 mínútna langur og er því að birtast 10 sinnum á klukkustund og hver auglýsing því að birtast 240 sinnum á sólarhring. Í pakkanum eru fréttir, tilkynningar um viðburði í bæjarlífinu, myndir úr bæjarlífinu og auglýsingar verslana og fyrirtækja.

Áhorfendur láti frá sér heyra!
Dagskrá Kapalstöðvarinnar á eftir að þróast betur á næstu vikum. Okkur þætti vænt um að heyra frá áhorfendum og fá frá þeim línu á [email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024