Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Viðskipti

Viðtökur framar vonum og fjölgað í starfsliðinu
Haukur Benediktsson verslunarstjóri og Ólafur Rúnar Þórhallsson svæðisstjóri Krónunnar.
Föstudagur 6. nóvember 2015 kl. 09:20

Viðtökur framar vonum og fjölgað í starfsliðinu

– Krónan opnaði nýja verslun á Fitjum í Reykjanesbæ

Samkeppni á matvörumarkaði í Reykjanesbæ hefur aukist á síðustu vikum og nýjar verslanir opnað. Nú síðast opnaði Krónan stórverslun á Fitjum í Reykjanesbæ.
„Þessir fyrstu dagar hafa gengið vonum framar og viðtökurnar hafa verið betri en við áttum von á,“ segir Ólafur Rúnar Þórhallsson, svæðisstjóri Krónunnar, í samtali við Víkurfréttir.

Haukur Benediktsson, verslunarstjóri Krónunnar í Reykjanesbæ, sagðist einnig ánægður með móttökur viðskiptavina. Strax við opnun verslunarinnar á föstudag hafði myndast röð við innganginn og örtröð var í versluninni alla síðustu helgi.



Nokkuð er síðan skorað var á Krónuna að opna í Reykjanesbæ og sagði Ólafur Rúnar að brugðist hafi verið við þeirri áskorun en það hafi tekið tíma að fá húsnæði. Krónan í Reykjanesbæ flokkast sem verslun í miðlungsstærð en þó með kjötborði. Haukur segir framboð í kjöti og fiski vera ríkulegt í versluninni og er kjötpökkun á staðnum þar sem öllu kjöti og fiksi er pakkað alla daga vikunnar. Í Krónunni er einnig úrval af tilbúnum réttum og í versluninni á Fitjum er verið að prófa hluti í þeim málum sem ekki eru í öðrum Krónuverslunum. Ólafur Rúnar segir þá hluti vera að reynast vel, bæði í heitum tilbúnum réttum og einnig í réttum sem eru tilbúnir í ofninn.

Í ávaxta- og grænmetisdeild Krónunnar er ferksleikinn ávallt í fyrirrúmi en þar er einnig að finna lífrænar vörur, ávaxtamarkaðinn og árstíðahjólið. Ávaxtamarkaður er þannig að viðskiptavinur velur 10 ávexti í poka og borgar 40 kr. fyrir stykkið ef keyptir eru 10 ávextir. Annars kostar ávöxturinn á ávaxtamarkaðnum 50 krónur. Í Krónunni er einnig árstíðahjól í ávaxta- og grænmetisdeild. Með árstíðarhjóli Krónunnar geta viðskiptavinir séð hvaða ávextir og grænmeti eru í uppskeru hverju sinni.

Mikil áhersla er á heilsuvörur í versluninni, bæði lífrænt ræktaðar og ferskvöru en ferskvara tekur um 50% af verslunarrýminu.

Í Krónunni á Fitjum er stór snyrtivörudeild með um 2000 vörunúmer í snyrtivöru. Þar er t.a.m. merkjavara sem er að sögn Ólafs Rúnars mun ódýrari en í snyrtivörudeildum apóteka.

Þá vekur athygli að sælgæti er ekki í boði við afgreiðslukassa verslunarinnar og börnum er boðið að fá sér ávöxt til að borða í versluninni á meðan foreldrarnir versla. Á næstu dögum verður svo tekið upp kerfi í minnkun á matarsóun í ávöxtum og grænmeti. Þá verða vörur í þeirri deild seldar á 99 krónur þegar gæðin eru að byrja að falla. T.a.m. væri hægt að kaupa kíló af eplum á 99 krónur, epli sem eru fín í safapressur eða til að gefa fuglum. „Við erum að tala um vöru sem er í fullkomnu lagi, útlitslega ekki falleg en ekki skemmda eða mygluð,“ segir Ólafur Rúnar.

Fjölgað verður í starfsliði Krónunnar á Fitjum um þrjár 100% stöður og átta starfsmenn í hlutastörf. Þá er verslunin að veita fimmtíu manns vinnu, bæði í fullu- og hlutastarfi.




 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024