Viðsnúningur á rekstri Grindavíkurbæjar
Ársuppgjör Grindavíkurbæjar og stofnana fyrir árið 2012 var lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Grindavíkurbæjar á föstudag. Rekstrarniðurstaðan er talsvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir en 230 milljón kr. rekstrarafgangur varð í fyrra sem er um 170 mkr. betri afkoma en ráð var fyrir gert. Munar þar mestu um að rekstrartekjur eru 208 mkr yfir áætlun, þar á meðal útsvar rúmlega 100 mkr. og framlag úr Jöfnunarsjóði tæpar 50 mkr.
Gert er ráð fyrir fjárfestingu upp á 1700 mkr. á næstu fjórum árum. Ráðast á í uppbyggingu íþróttamannvirkja og byggingu bókasafns og tónlistarskóla við grunnskólann. Framkvæmdirnar verða að mestu fjármagnaðar með veltufé frá rekstri og um 200 mkr af handbæru fé. Því þarf ekki að taka lán til framkvæmdanna en á móti kemur að reksturinn mun þyngjast talsvert þegar mannvirkin verða komin í notkun.
„Niðurstaðan er jákvæð og ljóst að reksturinn er á réttri leið og í samræmi við markmið sem bæjarstjórnin setti sér undir lok árs 2010 og aftur fyrir síðustu fjárhagsáætlun. Við erum að ráðast í miklar framkvæmdir án þess að taka lán og því er mikilvægt að bæjarsjóður skili góðum afgangi á næstu árum. Þessi viðsnúningur í rekstri bæjarins til hins betra er samstilltu átaki bæjarstjórnar og starfsfólks bæjarins að þakka sem hefur lagt sitt af mörkum við ýmsar hagræðingaraðgerðir. Grindavíkurbær er einn vinnnustaður og ábyrgðin og árangurinn er okkar allra,“ segir Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í tilkynningu frá Grindavíkurbæ.
Rekstrarniðurstaða A-hluta Grindavíkurbæjar var jákvæð upp á 180,3 mkr. en áætlun gerði ráð fyrir 55,9 mkr. hagnaði. Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta, var 230,4 mkr. í afgang en áætlun gerði ráð fyrir 58,6 mkr. í rekstrarafgang. Við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2013 var ljóst að útsvarstekjur ársins 2012 yrðu nokkuð umfram áætlun. Því var samþykkt að lækka útsvarshlutfall úr 14,48% í 14,28%
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal rekstur sveitarfélaga vera fyrir ofan núllið á hverju þriggja ára tímabili með árið 2011 sem upphafsár. Áætlanir gerðu ráð fyrir að tap ársins 2011, sem var rúmar 100 mkr., yrði jafnað á árunum 2012 og 2013. Tekjuauki á árinu 2012 gerir hins vegar að verkum að búið er að jafna tapið nú þegar.
Heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B hluta eru 7.647,8 mkr. Heildarskuldir og skuldbindingar eru 1.443,8 mkr. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar um 437 mkr. Langtímaskuldir eru 767,8 mkr og næsta árs afborganir eru 43,5 mkr. Eigið fé í samanteknum reikningsskilum er 6.204 mkr. og er eiginfjárhlutfall 81,1%.
Skuldahlutfall A- og B- hluta, þ.e. heildar skuldir og skuldbindingar, nemur 68,4% af reglulegum tekjum. Þar af eru 22,3% vegna skuldar sem til er komin vegna kaupa á Orkubraut 3 af HS Orku en sú skuld er fjármögnuð með auðlindagjaldi og lóðaleigu frá HS Orku.
Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 480,3 mkr. í veltufé frá rekstri sem er 22,8% af heildartekjum en áætlun gerði ráð fyrir veltufé frá rekstri að fjárhæð 295,9 mkr.
Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í samanteknum reikningsskilum A og B hluta nam á árinu 2012, 282,7 mkr. en áætlun gerði ráð fyrir 644 mkr. Helsta skýring á þessu fráviki er að áætlunin gerði ráð fyrir framkvæmdum við ný íþróttamannvirki en ekki náðist að hefja framkvæmdir á árinu 2012. Auk þess frestuðust framkvæmdir við nýjan tónlistarskóla og nýtt bókasafn. Á árinu voru engin ný lán tekin en afborganir langtímalána voru 68,8 mkr .
Handbært fé hækkaði um 191,8 mkr. frá fyrra ári en áætlun gerði ráð fyrir lækkun að fjárhæð 331,7 mkr. Handbært fé í árslok 2012 var 1.498 mkr.