Viðskiptavinir sparisjóðanna ánægðastir sjötta árið í röð
Ánægja með sparisjóðina meðal viðskiptavina þeirra er meiri en ánægja viðskiptavina annarra fjármálafyrirtækja með þau, samkvæmt niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar 2004. Niðurstaðan á við um viðskiptavini samtals 23 sparisjóða um land allt sem starfa undir vörumerkinu SPARISJÓÐURINN.
Íslenska ánægjuvogin er viðamikil könnun á viðhorfum landsmanna til 25 fyrirtækja í mismunandi atvinnugreinum sem IMG Gallup hefur framkvæmt árlega frá 1999. Sparisjóðirnir hafa frá upphafi, sex ár í röð, komið áberandi best út í sínum flokki.
Könnunin var framkvæmd á tímabilinu júlí til október 2004 og náði til 11.000 manna slembiúrtaks úr þjóðskrá á aldrinum 15-75 ára. Svarhlutfall var ríflega 56%. Munurinn á útkomu sparisjóðanna og annarra fjármálafyrirtækja liggur utan skekkjumarka og telst því marktækur.
Aðstandendur Íslensku ánægjuvogarinnar eru Stjórnvísi, Samtök iðnaðarins og IMG Gallup. Könnunin er hluti evrópsks samstarfsverkefnis sem nefnist EPSI Rating, þar sem EPSI stendur fyrir European Performance Satisfaction Index.