Viðskiptahugmyndin fæddist í matarklúbbi
MiniRent er ungt og mjög upprennandi fyrirtæki
„Við höfðum allar verið þar; burðast með kerrur, bílstóla og aðra fyrirferðamikla hluti í gegnum flugvelli, flugvélar og lestarstöðvar,“ segja vinkonurnar María, Ásta og Ragnhildur sem stofnuðu fyrirtæki sem gengur út á leigu á ýmsum barnavörum.
Síðasta sumar varð spjall þriggja vinkvenna úr Reykjanesbæ að viðskiptahugmynd og fyrirtækið MiniRent varð til. Viðskiptamódelið gengur út á að leigja út alls kyns barnavörur fyrir ferðafólk. Vinkonurnar, María Sigurborg Kaspersma, Ásta Rós Árnadóttir og Ragnhildur Inga Rudolfsdóttir hafa alltaf haft mikinn áhuga á ferðalögum og hafa ferðast með börnin sín víðsvegar um heiminn. Þær fóru að ræða öll vandamálin og áhyggjurnar sem fylgja því að ferðast með lítil börn. Þær höfðu allar verið þar; burðast með kerrur, bílstóla og aðra fyrirferðamikla hluti í gegnum flugvelli, flugvélar og lestarstöðvar. Að reyna að koma öllum farangrinum fyrir í leigubílnum og komast svo að því að eitthvað skemmdist í fluginu og allt þetta vesen var til einskis. Þá kom hugmyndin. Hvað ef það væri leið fyrir fjölskyldur að ferðast „léttar“? Að sleppa við stressið og leiðindin, því nógu stressandi gat þetta verið fyrir! Og enn betra; hvað ef þær gætu hjálpað öðrum foreldrum í sömu stöðu?
Þannig varð spjall að hugmynd, hugmynd að ástríðu og útkoman; Fyrirtækið MiniRent.
Fyrirtækið hefur nú þegar sprengt húsnæðið utan af sér tvisvar sinnum og rífandi gangur hefur verið nánast frá opnun. Ásta tók fyrst til máls. „Ég var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í einhvern tíma, svo vorum við vinkonurnar í matarklúbbi síðasta sumar og þá bar viðskiptahugmyndir á góma, eins og við kölluðum það; „milljón dollara hugmynd“. Þá sagði maðurinn minn frá þessari pælingu minni og vinkonurnar gripu hana um leið. Matarklúbburinn var á laugardagskvöldi, á mánudegi vorum við komnar af stað og í sömu viku var kennitala fyrir fyrirtækið komin. Við hófum rekstur 1. nóvember, vorum með lagerinn í bílskúrnum heima hjá mér en mjög fljótlega sáum við að það var allt of lítið húsnæði, þá fluttum við okkur á Flugvallarbrautina 1. janúar en sama staða kom upp nánast um leið, þetta var of lítið og þess vegna höfum við tryggt okkur stærra og hentugra húsnæði á Hólmbergsbraut sem er á milli Leifsstöðvar og Kölku. Við flytjum þangað 1. apríl,“ sagði Ásta Rós.
Íslendingar stærsti hluti viðskiptavinanna
María Sigurborg fór yfir hvernig kúnnahópurinn breyttist í raun frá því að hugmyndin fæddist.
„Hugmyndin gekk mest út á erlent ferðafólk sem er í sömu stöðu og við vinkonurnar þegar við vorum að ferðast með okkar börn til útlanda. Hins vegar hafa mestu viðskiptin komið frá löndum okkar sem eru á leið til útlanda. Við erum með snilldarferðakerrur sem passa í farangurshólfið fyrir ofan sætin í flugvélunum og þá geta foreldrarnir verið með börnin sín í kerru áður en haldið er í flug en við bjóðum meðal annars upp á að afhenda vörurnar uppi í Leifsstöð. Þetta hefur algjörlega slegið í gegn og eins og ég segi, flestir viðskiptavinirnir eru landar okkar og sömuleiðis hefur verið vinsælt hjá ömmum og öfum, sem eru t.d. að fá börnin sín og barnabörn í heimsókn frá útlöndum fyrir jól, að leigja af okkur nauðsynlegan búnað. Oftast eru þetta vörur sem óþarfi er að kaupa fyrir tveggja vikna frí og þess vegna hefur þetta mælst mjög vel fyrir. Erlendir ferðamenn eru farnir að kveikja meira og meira á okkur, við erum eina fyrirtækið sem býður upp á þessa þjónustu fyrir þá hér á Íslandi svo Google leitarvélin er fljót að vísa þeim til okkar,“ sagði María.
Mjög öflugt tríó
Ragnhildur Inga fór yfir hvernig vöruúrvalið hefur breyst, hvernig daglegur rekstur er og hvernig verkaskipting vinkvennanna er.
„Það hefur komið okkur skemmtilega á óvart hvernig sumar vörur, sem við höfðum ekkert endilega mikla trú á, hafa verið mjög vinsælar. Sem dæmi viftur sem eru ansi mikilvægar þegar gengið er með barnið í hitanum á Tene, þær hafa hreinlega rokið út. Eins grunar mig að þessar viftur verði vinsælar á Íslandi í sumar út af lúsmýinu. Við erum alltaf með augun opin fyrir nýjum hugmyndum og eins viljum við fá ábendingar frá okkar kúnnum, hvað þeim þætti gott að geta leigt. Þá munum við skoða það og reyna bjóða upp á. Ég sinni daglegum rekstri og vinnan snýst langmest um að afhenda vörurnar og taka á móti, við bjóðum upp á þessa þjónustu milli 8:00 og 20:00 alla daga. Við afhendum vörur og tökum á móti alls staðar á Suðurnesjunum frítt, bjóðum líka upp á afhendingu á vörum á höfuðborgarsvæðinu en rukkum þá sanngjarnt verð fyrir. Við þrífum og sótthreinsum allar vörurnar þegar þeim er skilað og auðvitað fer líka tími í það. Svo kemur alltaf eitthvað upp á sem þarf að bregðast við en þó svo að ég sé þannig séð eini starfsmaðurinn þá eru stelpurnar mjög duglegar að skjótast í tilfallandi verkefni. Verkaskiptingin er skýr hjá okkur þar sem við nýtum styrkleika hverrar annarrar. Ég hannaði útlitið á heimasíðunni, logo-ið og þess háttar, Ásta sér um tækni- og tölvumálin, María er frábær í mannlegum samskiptum, er mikið í að afhenda og taka á móti vörum og við vinnum einfaldlega mjög vel saman sem teymi. Við notum -Instagram mikið, erum duglegar að setja inn upplýsingar um vörurnar okkar, deilum góðum ráðum þegar kemur að því að ferðast með börn og fleira í þeim dúr. Við mælum því eindregið með að fólk sem er á leið erlendis með börnin sín, fylgist með okkur þar. Eins reynum við að hafa heimasíðuna, www.minirent.is, virka. Við bjóðum upp á pöntun á netinu, það hefur gengið mjög vel.
Þetta hefur farið vel af stað hjá okkur og hver veit? Kannski munum við þurfa flytja enn og aftur en það verður þá bara skemmtilegt vandamál við að glíma. Okkur finnst mikilvægt að það komi fram að oft er umhverfisvænna fyrir jörðina okkar að leigja hluti í stað þess að kaupa og nota kannski bara í eitt skipti. Með því að leigja hjá MiniRent styður fólk við sjálfbæra neyslu og deilihagkerfið og sparar sér pening í leiðinni,“ sagði Ragnhildur að lokum.