Viðhorfsbreyting og heimamönnum treyst
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík, segir að sólarhringsopnun á Grindavík breyti ekki miklu en það sé viðhorfsbreyting að þetta sé á höndum fólksins að vera. „Húsin eru kaldavatnslaus og hitalaus, þannig að það er enginn að búa í þeim. Þetta er yfirlýsing um að nú er heimamönnum treyst til að fylgja þessu eftir,“ segir í Pétur í samtali við Víkurfréttir.
Hver er staðan hjá ykkur í Vísi í dag?
„Við fylgjumst með eins og aðrir og fögnum öllu því sem ýtir undir það að við förum af stað.“
Þið hafið flutt eitthvað af ykkar starfsemi til Helguvíkur.
„Við settum upp eina línu þar og erum reyndar að framleiða fisk sem við vorum ekki að gera hér. Við vorum að bregaðst við því að hér í Grindavík þurfum við að fara inn og út einu sinni í mánuði. Það er einfaldlega of erfitt að vera með saltfiskinn í því. Þetta eru svo miklir massaflutningar. Við erum frekar að horfa að að koma með aðra starfsemi sem er birgðaminni þegar þetta byrjar. Starfsemin í Helguvík er öðruvísi framleiðsla en við vorum að gera hérna í Grindavík. Það sem við erum að gera í Helguvík er svokölluð portvinnsla, einföld. vinnsla og unnið úr stærri fiski, vertíðarfiski og það er gamli vertíðarbragurninn á því.“
Pétur segir milljarðaverðmæti í húsum og tækjum í Grindavík sem bíða eftir því að vera sett í gang. Hann segir að endurræsingin þurfi að vera örugg fyrir alla, að fyrirtækin séu rekstrarhæf og fólkið sem vinnur þar sé öruggt.
Ertu vongóður um að það sé að birta yfir?
„Ég hef ekki hugmynd um það. Maður er bara í sama rússíbananum og allir aðrir. Við vonum bara að hægt og bítandi fari þetta í gang. Ég held að jörðin ráði því en við erum klár í það sem þarf að gera. Það eru svo margir sem koma að þessu. Almannavarnir, lögreglustjóri, ríkið og tryggingafélög. Það er fullt af aðilum eins og sveitarfélagið og veiturnar til að gera þetta mögulegt. Dagurinn í dag er upphafið af því að menn eru að byrja þessa uppbyggingarvinnu, að lokinni verðmætabjörgun og búslóðabjörgun.“
Hefur þetta ekki gengið alltof hægt?
„Við höfum margsagt það. Það leið alltof langur tími á milli atburða sem mönnum var haldið frá. Það er það sem við höfum gagnrýnt alveg stanslaust. Við þekkjum þetta svæði hérna mjög vel. Við vitum hvað fimmtíu tonna trukkar hafa keyrt. Við erum í beinu sambandi við heimamenn sem þekkja hverja einustu holu og einustu sprungu. Við hefðum geta verið hérna meira og minna 90% af dögunum ef við hefðum ráðið því og stjórnað.“
Nú er mögulega stutt í næsta atburð. Ertu hræddur um að þá taki aftur við of langur biðtími?
„Nei, ég ætla að vona að menn séu búnir að læra það núna. Að taka við þessu sjálfir þýðir að við verðum að vera með öryggið á hreinu. Ég hef líkt þessu við það ef útgerðarfélögin tækju sig til og ákveddu það uppi á skrifstofu hvenær ætti að róa og hvenær ekki og tækju þau völd af skipstjóranum. Ég er ekki viss um að menn væru að róa á réttum tímum og færu á sjó þegar ætti ekki að vera á sjó og færu ekki á sjó þegar best væri og blíðast. Það gerðist hér síðast að við vorum með tvær vikur í blíðu á meðan dróninn sveif hérna yfir og svo vorum við að þvælast hér í bænum síðustu dagana þegar við áttum ekki að vera hérna. Það er alltaf betra að vera með menn á vettvangi sem stýra þessu. Við gerum okkur líka grein fyrir því að vera menn til að standa undir því,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson hjá Vísi hf.