Videoleiga á hverju heimili
Fyrir tæpum tveimur árum síðan fóru tveir ungir Suðurnesjamenn, þeir Erlingur Þorsteinsson og Magnús M. Stefánsson, af stað með frumkvöðlahugmyndina filma.is. Viðtökur hafa verið langt umfram væntingar, að sögn þeirra félaga en nú eru 20.000 notendur sem kaupa þjónustu fyrirtækisins. Filma.is er eins konar vídeóleiga á netinu þar sem notendur kaupa inneign sem þeir nota síðan til að leigja eða eiga kvikmyndir og þáttaseríur eftir atvikum.
Þeir félagar stofnuðu fyrirtækið Moon ehf. utan um hugmyndina og unnu að þróun hennar í samstarfi við ýmsa aðila á Suðurnesjum, s.s. Dacoda og Guðmund Sigurðsson. Þeir kynntu hugmyndina helstu dreifingaraðilum myndefnis á Íslandi sem tóku henni vel og hafa Sambíóin verið helsti samstarfsaðilinn. Filma.is dreifir í dag kvikmyndum og þáttum frá öllum helstu framleiðendum. Um þessar mundir eru 300 kvikmyndir aðgengilegar á Filma.is og átján þáttaraðir. Þannig eru Mannasiðir Gillz orðnir aðgengilegir á vefnum.
Filma.is býður upp á talsvert af íslensku efni og á næstu vikum verður úrvalið af því stóraukið og jafnframt stefnir í að Filma.is geti boðið Íslendingum erlendis upp á að horfa á íslenskt sjónvarpsefni en verið er að ljúka samningum um dreifingu efnisins. Þá verða í boði allir vinsælustu íslensku þættirnir og flestar íslenskar kvikmyndir.
Þeir félagar Erlingur og Magnús segjast hafa meira en nóg að gera í rekstri Filma.is. Erlingur sér um forritun og kerfisþáttinn á meðan Magnús sér um dags daglega umsjón og uppfærslur á síðunni.
Erlingur starfaði sem forritari meðfram námi í HR áður en hann hóf að vinna að hugmyndinni.
„Mig langaði í þetta, það var aðallega það,“ svarar Erlingur þegar hann er inntur eftir því hvað það var sem ýtti þeim félögum af stað. „Þessa tegund afþreyingar vantaði hér á Íslandi. Við sækjum fyrirmyndina vestur um haf t.d. til Netflix og Hulu. Okkur fannst tími til að gera eitthvað slíkt Íslandi og töldum jarðveginn góðan,“ segja þeir Erlingur og Magnús.
Þeir virðast hafa haft rétt fyrir sér því viðbrögðin við filma.is eru langtum betri en þeir þorðu að vona. Samt hefur vefsíðan lítið verið auglýst. Þó var haldin kynningarhelgi á dögunum og boðinn ókeypis aðgangur að öllu efni á síðunni. Það mæltist vel fyrir. Álagið var þó mikið um tíma en það tókst að koma í veg fyrir að vefþjónar síðunnar færu á hliðina. Þeir félagar segja kynningarhelgina hafa gefist vel og fjölmargir nýir viðskiptavinir hafi bæst í hópinn síðan þá.
En hver er ávinningurinn af því að velja filma.is umfram aðrar leiðir?
„Þessi vídeóleiga er alltaf opin og þú þarft ekki að gera þér ferð til að skila myndinni daginn eftir. Þetta er einnig afar einfalt í notkun. Eftir að þú hefur keypt inneign eru ekki nema þrír músasmellir þar til þú getur byrjað að horfa á efnið. Við geymum efni sem þú kaupir, ef þú vilt það frekar en að leigja, svo þú þarft ekki að niðurhala því, geyma á DVD diskum, sem geta skemmst, eða á flökkurum sem kosta sitt. Þú átt þína síðu þar sem þú geymir myndirnar sem þú kaupir. Þú greiðir fyrir notkun með inneign og hagar henni eins og þú vilt í stað þess að vera með fasta áskrift og afruglara.“
Erlingur segir kosti filmu.is ekki síst felast í því að síðuna er hægt að nota alls staðar þar sem nettenging er til staðar. Það nýtist t.d. vel á landsbyggðinni. „Ég get nefnt sem dæmi konu á Patreksfirði sem hafði samband við okkur og lýsti yfir ánægju með filma.is þar sem verið var að loka myndbandaleigunni á staðnum. Þetta var eina leiðin fyrir hana til að leigja myndir. Það má segja að með filmu.is sé komin vídeóleiga inn á öll heimili.“
Myndin: Erlingur Þorsteinsson og Magnús M. Stefánsson hafa bækistöðvar á Ásbrú þar sem þeir hafa unnið að hugmyndinni.