Vídeóleiga á hverju heimili
Fyrir rétt rúmu ári síðan fóru tveir ungir Suðurnesjamenn og forritarar, þeir Erlingur Þorsteinsson og Magnús Margeir Stefánsson, af stað með frumkvöðlahugmynd sem á dögunum varð að veruleika þegar vefnum filma.is var hleypt af stokkunum. Viðtökur hafa verið langt umfram væntingar, að sögn þeirra félaga sem hafa bækistöðvar á Ásbrú þar sem þeir hafa unnið að hugarfóstri sínu.
Góður jarðvegur
Þeir félagar stofnuðu fyrirtækið Moon ehf utan um hugmyndina og unnu að þróun hennar í samstarfi við ýmsa aðila á Suðurnesjum, s.s. Dacoda og Guðmund Sigurðsson, grafískan hönnuð. Þeir kynntu hugmyndina helstu dreifingaraðilum myndefnis á Íslandi sem tóku henni vel og hefur Samfilm verið helsti samstarfsaðilinn.
Erlingur starfaði sem forritari meðfram námi í HR áður en hann hóf að vinna að hugmyndinni. Hann sér um forritun og kerfisþáttinn á meðan hlutverk Magnúsar er að sjá um dags daglega umsjón og uppfærslur á síðunni.
Vefurinn er eins konar vídeóleiga á netinu þar sem notendur kaupa inneign sem þeir nota síðan til að leigja eða eiga kvikmyndir og þáttaseríur eftir atvikum.
„Mig langaði í þetta, það var aðallega það,“ svarar Erlingur þegar hann er inntur eftir því hvað það var sem ýtti þeim félögum af stað. „Þessa tegund afþreyingar vantaði hér á Íslandi. Við sækjum fyrirmyndina vestur um haf t.d. til Netflix og Hulu. Okkur fannst tími til að gera eitthvað slíkt á Íslandi og töldum jarðveginn góðan,“ segja þeir Erlingur og Magnús.
Þeir virðast hafa haft rétt fyrir sér því viðbrögðin við filma.is eru langtum betri en þeir þorðu að vona. Samt hefur vefsíðan lítið verið auglýst en þeir félagar kalla opnun hennar „soft launch“ sem þýðir að hún er ekki komin í þá mynd sem hún á að vera. Eiginleg markaðssetning hefst á næstunni þegar filma.is fær stórt safn mynda frá erlendum framleiðendum.
Aukið framboð á næstunni
„Á næstu vikum fáum við samning hjá Warner sem felur í sér stóran pakka af þeirra efni, bæði bíómyndir og þætti. Þá förum við í að auglýsa þetta betur. Það er næsti stóri áfanginn í þessari þróun. Næstu plön eru tæknilegar útfærslur sem gera notendum kleift að sækja efni af filma.is til að horfa á í öðru en tölvunni eingöngu t.d. í símanum, sjónvarpinu eða I-Pad,“ útskýrir Erlingur aðspurður um næstu skref í þróun filma.is.
En hver er ávinningurinn af því að velja filma.is umfram aðrar leiðir?
„Þessi vídeoleiga er alltaf opin og þú þarft ekki að gera þér ferð til skila myndinni daginn eftir. Þetta er einnig afar einfalt í notkun. Eftir að þú hefur keypt inneign eru ekki nema þrír músasmellir þar til þú getur byrjað að horfa á efnið. Við geymum efni sem þú kaupir, ef þú vilt það frekar en að leigja, svo þú þarft ekki að niðurhala því, geyma á DVD diskum, sem geta skemmst, eða á flökkurum sem kosta sitt. Þú átt þína síðu þar sem þú geymir myndirnar sem þú kaupir. Þú greiðir fyrir notkun með inneign og hagar henni eins og þú vilt í stað þess að vera með fasta áskrift og afruglara.“
Erlingur segir kosti filmu.is ekki síst felast í því að síðuna er hægt að nota alls staðar þar sem nettenging er til staðar. Það nýtist t.d. vel á landsbyggðinni. „Ég get nefnt sem dæmi konu á Patreksfirði sem hafði samband við okkur og lýsti yfir ánægju með filma.is þar sem verið var að loka myndbandaleigunni á staðnum. Þetta var eina leiðin fyrir hana til að leigja myndir. Það má segja að með filma.is sé komin vídeóleiga inn á öll heimili.“
VFmynd/elg - Erlingur Þorsteinsson og Magnús Margeir Stefánsson eru með bækistöðvar á Ásbrú.