Video: Almenn ánægja kaupmanna
Hljóðið var almennt nokkuð gott í kaupmönnum á Suðurnesjum og þeir ánægðir með jólaverslunina. Flestir eru sammála um að kauphegðum fólks hafi breyst þó verslun hafi í sjálfu sér ekki dregist saman á milli ára.
„Það hefur gengið alveg þokkalega. Við sjáum lítillega breyttar áherslur í innkaupum hjá fólki, þau eru markvissari og minna um óhóf eins og var . Annars eru þetta bara fín „kaupmannsjól“ að okkar mati. Það var mikil bót að setja Nettó hérna í húsið og hafði mikið að segja. Þetta var greinilega það sem fólkið vildi þannig að við erum mjög ánægðir,“ sagði Stefán Guðjónsson, forstöðumaður innkaupa- og markaðssviðs Nettó og Samkaupa, í samtali við VF.
Aðrir kaupmenn á svæðinu tóku í sama streng og Stefán. Sumir töldu að jólaverslunin hafi byrjað fyrr en áður en aðrir sögðu mesta þungan hafa verið síðustu dagana. Kristín Kristjánsdóttir, kaupkona í Kóda sagðist líka hafa orðið vör við fólk úr Reykjavík. Það eru margir búnir að átta sig á að það er miklu rólegra, notalegra og ódýrara að versla á minni stöðum,“ sagði Kristín.