HSS sumarstörf 14-21 mars
HSS sumarstörf 14-21 mars

Viðskipti

Viðamiklar breytingar í Sporthúsinu
Tölvugerð mynd sem sýnir hvernig búningsaðstaðan verður þegar hún er fullbúin.
Þriðjudagur 12. mars 2019 kl. 06:50

Viðamiklar breytingar í Sporthúsinu

Miklar framkvæmdir eru þessar vikurnar í Sporthúsinu á Ásbrú í Reykjanesbæ. Unnið er að endurnýjun búningsaðstöðunnar sem komin var til ára sinna og hafði ekki verið endurnýjuð frá því að Varnarliðið rak íþróttahús sitt og sundlaug í húsinu. 
 
„Þetta voru bara gömlu hermannaskáparnir og yfirbragðið sem fylgdi þeim,“ segir Ari Elíasson, framkvæmdastjóri Sporthússins í Reykjanesbæ í samtali við Víkurfréttir. Nú er verið að taka búningsklefana í gegn frá A til Ö og öllu skipt út. Þannig er fataskápum skipt út, ný sturtuaðstaða, ný salernisaðstaða, gólfefni og lýsing og í raun allt endurnýjað.
 
„Við erum búin að horfa til þess í nokkurn tíma að taka þetta skref og uppfæra aðstöðuna í nútímalegra horf. Það sem í raun kveikti endanlega í mér var sýning hjá JeES arktitektum á Ljósanótt í fyrra. Ég hreifst mikið af verkum Jóns Stefáns arkitekts á sýningunni og óskaði eftir fundi með honum í framhaldi, þá var ekki aftur snúið bætir Ari glettinn við. Þetta er mikið verkefni og við áætlum að umbreyting á búningsaðstöðunni taki hálft ár. Við hófum framkvæmdir í byrjun desember og áætlum að þeim ljúki í vor,“ segir Ari. Hann segir framkvæmdina talsvert flókna þar sem hún er unnin samhliða því að líkamsræktarstöðin er opin. „Þetta þarf því að vinnast í áföngum og í góðu samstarfi við viðskiptavini stöðvarinnar.“
 
Spurður hvers vegna ákveðið hafi verið að ráðast í verkefnið á þessum tíma en ekki yfir sumarmánuði, sem sé rólegri tími í ræktinni, sagði Ari að verkefnið tæki alltaf fimm til sex mánuði þegar það er unnið samhliða opnunartíma stöðvarinnar. Þá sé auðveldara að fá iðnaðarmenn í innanhússvinnu yfir vetrarmánuðina en á sumartíma og því ákveðið að ráðast í verkefnið á þessum tíma.
 
Svæðið sem unnið er að endurbyggingu og breytingum eru ríflega 400 fermetrar. Þannig er tilfærsla á baðaðstöðu, sett verða upp ný saunaböð og heitur og kaldur pottur. „Sú aðstaða verður sameiginleg fyrir karla og konur. Nú er því upplagt fyrir hjón eða pör að fara saman í ræktina og skella sér svo saman í sauna eða pottinn eftir æfinguna,“ segir Ari sem er orðin spenntur að sjá útkomuna á breytingunum. Hann segir að viðskiptavinir Sporthússins séu einnig ánægðir með þá breytingu sem sé að verða og hafi sýnt framkvæmdum mikinn skilning.  
 
Eins og fyrr segir er framkvæmdasvæðið rúmlega 400 fermetrar en við breytingarnar sem nú er unnið að verður til svæði sem nýtist mun betur en áður. Varnarliðsmenn voru nefnilega mjög duglegir á sínum tíma að búa til kompur, skúmaskot og ranghala en nú er svæðið opnað upp á gátt og nýtist allt mun betur. Þá verður sett ný og fullkomin LED-lýsing í búningsaðstöðuna og það verður því talsvert meiri upplifun að koma inn í nýja búningsklefa og SPA-svæði þegar framkvæmdum er lokið.
Ari segir breytingarnar á búningsaðstöðunni vera eina stærstu framkvæmdina sem ráðist hefur verið í á stöðinni frá því hún opnaði fyrir tæpum sjö árum síðan ef undan er skilin breyting á gömlu sundlauginni í knattspyrnusal. „Við getum sagt að við séum núna að setja fimmtu stjörnuna í stjörnugjöf stöðvarinnar með þessu,“ segir Ari.
 
Ari segir að frá því Sporthúsið opnaði í Reykjanesbæ fyrir tæpum sjö árum hafi strax orðið mikil hugarfarsbreyting hjá íbúum svæðisins sem hafi verið fljótir að tileinka sér það sem Sporthúsið hafi upp á að bjóða. Vöxturinn hafi verið mikill fyrstu árin og fylgir nú vexti samfélagsins en Sporthúsið er vel sótt af íbúum allra sveitarfélaga á Suðurnesjum. „Svo hefur orðið mikil hugarfarsbreyting síðustu ár og margir farnir að stunda holla og góða líkamsrækt, sem er hið besta mál,“ segir Ari.
 
Opnunartíminn í Sporthúsinu er langur og er m.a. miðaður að því að á Suðurnesjum er mikið af vaktavinnufólki sem getur stundað ræktina á óhefðbundnum tíma. Þannig opnar stöðin kl. 05:50 að morgni og lokar kl. 23:00 að kvöldi virka daga og álagið dreifist því jafnt yfir daginn. „Stöðin er opin vel á fimmta hundruð tíma á mánuði þannig að það ættu allir að geta fundið tíma til að fara í ræktina og efla heilsuna.“ 
 
Stefnt er að því að opna nýja búningsaðstöðu og meðfylgjandi SPA í maí. „Þetta verður alveg geggjað,“ sagði Ari að endingu.

 
 
Public deli
Public deli